144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við tökum þá aftur til við að ræða þessi tvö mál sem voru til umfjöllunar fyrr í vetur og nokkuð fyrirferðarmikil. Þar tókst sem betur fer svo til að menn féllust á að gera hlé á umræðum um þingsályktunartillöguna sem er næst á dagskrá og bíða með 3. umr. um þetta frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum sem tekur inn ákvæði um kerfisáætlun og afrakstur þess eru nokkrar breytingar og betrumbætur á málinu. Ég tek undir það sem margir hafa sagt að sú vinna skilaði þó þrátt fyrir allt árangri og málið tók breytingum til bóta sem aftur og á sinn hátt staðfestir að menn hefðu þurft að gefa sér meiri tíma og þyrftu enn að mínu mati.

Nú er það svo að ég er mjög áhugasamur um þá aðferðafræði sem hér er lagt upp með að menn móti einhverjar leikreglur um hvernig við stöndum að uppbyggingu raforkuflutnings og dreifikerfisins og höfum þar eitthvað við að styðjast. Það er almennt viðhorf í samfélaginu, hygg ég, að það sé nokkru til kostandi að draga úr því að risavaxnar háspennulínur ryðji sér enn frekar til rúms með þeim áhrifum sem þær óneitanlega hafa, sjónrænum og margvíslegum, og þess vegna hafa menn verið mjög áhugasamir um að koma meiru af raforkudreifikerfinu í jörð.

Nú hefur tæknin og þróunin auðvitað hjálpað til í þeim efnum og lagt sitt af mörkum, enda er svo komið að í raun og veru er nokkur hluti þessa málatilbúnaður óþarfur, þ.e. allt sem snýr að lágspenntri dreifingu á raforku er sjálfkrafa á leiðinni í jörð og dettur í raun engum í hug að burðast með loftlínur vítt og breitt um sveitir og héruð landsins með tilheyrandi truflunum og tjóni ef óveður verða. En eftir standa þá átökin um hvernig er farið með háspennta flutningskerfið sjálft, meginflutningskerfið. Þar hafa menn sömuleiðis verið áhugasamir um að það yrði skoðað og borið saman jafnan hvort ekki væri kostur að fara með það í jörð. Á ákveðnum svæðum eru svæðisbundin mjög sterk rök fyrir því, til dæmis í nágrenni við þéttbýli, ósnortnum víðernum eða þar sem veðurfarsaðstæður eða sérstök rök önnur, flugöryggi eða hvað það nú er mæla með.

Meiningin hefur verið að búa til betra utanumhald um undirbúning og ákvarðanatöku í þessum efnum og ég held að ætla megi að þetta sé í rétta átt en það þarf líka að vanda svona verk vel þegar lagt er af stað. Aðalgagnrýni okkar sem enn höfum efasemdir um þetta mál snýr að því í fyrsta lagi að kerfisáætlun er áfram gert afar hátt undir höfði og leikurinn er kannski ekki alveg jafnt þegar kemur annars vegar að bæði undirbúningi og ákvarðanatöku í þessum efnum, því það yrði fyrst og fremst í höndum flutningsfyrirtækisins Landsnets og Orkustofnunar að afgreiða þau mál og mikið vald sett í þeirra hendur. Það er allt gott um það að segja að í undirbúningi slíks ferlis komist sjónarmið að og lofað sé fögru um að leita samráðs. En spurningin er að lokum um það hvar valdið liggur þegar ákvarðanir eru teknar, hvað gert er með önnur sjónarmið, hvort sem þau eru frá umhverfisverndarsamtökum, frá sveitarfélagi, frá landeigendum eða öðrum slíkum aðilum þá verður að passa upp á að sæmilegs jafnræðis sé gætt í þeim efnum og það held ég að sé ekki gert í nægjanlega ríkum mæli enn sem komið er. Staða flutningsaðilans og staða kerfisáætlunarinnar verður mjög sterk gagnvart öðrum sjónarmiðum eins og enn sést á því hvað sveitarfélögum er ætlað að gera ef komin er niðurstaða í formi tillögu að kerfisáætlun sem Orkustofnun hefur samþykkt. Það verður líka að hafa í huga að leyfisveitingavaldið er þá með öðrum hætti en áður var.

Menn hafa velt upp ýmsum leiðum í þessum efnum, svo sem eins og hvort óháður úrskurðaraðili, einhvers konar gerðardómur ætti að vera á endanum í svona máli til að útkljá og leiða til lykta ágreining þegar hann rís og verður ekki jafnaður með samráði. Menn hafa líka lagt til að sérstaklega á undirbúningsskeiði fyrstu kerfisáætlunar samkvæmt þessu, sem verður auðvitað mjög stefnumarkandi, ég tala nú ekki um tíu ára hluti hennar, eigi hún að standa undir nafni þarf þar að leggja hinar stóru línur um áformin um framtíðaruppbyggingu fyrir flutningskerfið, að þá yrði starfandi einhvers konar þverpólitískur eða þverfaglegur samráðsvettvangur sem gæti fylgst með undirbúningnum, komið ábendingum að, passað upp á að öll sjónarmið fengju sanngjarna umfjöllun í ferlinu og reynt væri að tryggja þannig jafnræði með aðilum. Því miður hafa menn ekki einu sinni fallist á þetta. Eftir að upphaflegar hugmyndir um að kerfisáætlunin fengi einfaldlega staðfestingu á Alþingi eins og vegáætlun eða aðrar slíkar voru kveðnar í kútinn, menn eru aðallega með tæknileg rök gegn því að mér finnst, en ég lít svo á að það eigi aldrei að þurfa að þvælast fyrir mönnum ef Alþingi vill sjálft endanlega blessa stórar framkvæmdaáætlanir af þessu tagi þá hljóti að finnast leiðir til þess að það sé gerlegt, en gott og vel. Ef menn vilja ekki fara þá leið eins og gert er með samgönguáætlun eða heilbrigðisáætlun eða hvaðeina annað, þá hefði á móti verið til mikilla bóta að einhver slíkur samráðsvettvangur hefði verið til staðar, vaktað og fylgst með og haft aðgang að allri vinnu varðandi undirbúning fyrstu stóru kerfisáætlunarinnar. Ég hef eiginlega ekki fengið nein almennileg rök fyrir því að þessu megi ekki haga þannig. Ég verð að segja það. Þar held ég að menn hafi ekki alveg skilað því með einhverjum rökum af hverju slíkt hafi ekki getað orðið að veruleika sem við hefðum lagt mikið upp úr.

Það eru líka ýmis rök sem færð hafa verið fram fyrir því að þrátt fyrir allt gæti verið skynsamlegt að flýta sér hægt í þessum efnum þó ekki væri nema bíða þess að þriðja raforkutilskipunin sem slík væri komin hér í innleiðingarferlið. Svo er ekki, heldur á að tína út úr henni aðeins eina grein. Svo hafa nýlega gengið dómar og úrskurðir fallið sem eru afar athyglisverðir, sem tíminn leyfir ekki að kafa djúpt ofan í. En það er til dæmis alveg ljóst að menn túlka, nú Hæstiréttur, lög um mat á umhverfisáhrifum þannig að þau sem slík í eigin krafti geri það að verkum að það eigi að bera saman möguleikana á jarðstrengjum og loftlínum. Og þá má velta fyrir sér hvaða vægi þingsályktun hefur sem segir eitthvað um einhver viðmið, 1:1,5 eða 1:2, gagnvart því ef fyrir liggur túlkun á lögum um mat á umhverfisáhrifum sem kveður bara upp úr um að það skuli gert, samanber dóminn um byggðalínuna eða flutningskerfið frá Kröflu í Fljótsdal. Það eru hlutir sem hefði verið gott að tími gæfist til að hugleiða og skoða.

Það er gríðarlega mikið í húfi hér eins og endranær þegar um vandasöm og jafnvel umdeild mál er að ræða að mönnum takist þá vel til í upphafinu þegar menn eru að reyna að setja málin í nýjan farveg til að draga úr líkum á því að hver einasti spotti lendi í bullandi ágreiningi og kærum og málaferlum, eignarnámi o.s.frv. Þá er niðurstaðan auðvitað athyglisverð varðandi Suðurnesjalínu 2, að þar er eignarnámið hrakið til baka. Kom mér satt best að segja ekkert sérstaklega á óvart því að ég fékk í hendur fyrstu umsókn Landsnets um að fá það eignarnám sem atvinnuvegaráðherra á öndverðu ári 2012 og við settum það í rækilega skoðun, meðal annars vegna þess að okkur fannst ýmislegt vanta upp á að tímabært væri fyrir fyrirtækið að koma með betlistaf í ráðuneytið og biðja um eignarnám þegar lá jafnvel fyrir að sáralítið hafði verið talað við suma landeigendur og lítið reynt til að ná samkomulagi um málið. Kannski er rétta þróunin að segja okkur í þessum efnum, þessum tveimur tilvikum, að Hæstiréttur sé að taka sér meira olnbogarými til að túlka vafann náttúrunni í hag eða landeigendum í hag og hið yfirgnæfandi vald flutningsfyrirtækisins, eða þeirra aðila, sem áður kvað eiginlega upp lögin sjálft og fékk það sem það vildi, pantaði þau eignarnám sem það taldi sig þurfa á að halda, að það séu liðnir tímar og það er vel. Það væri í samræmi við anda og þróun umhverfisréttarins á öðrum sviðum.

En langalvarlegustu áhyggjur mínar eru bundnar við áformin um lagningu háspennulínu yfir miðhálendið. Með því er ég ekki að gera lítið úr þeim deilum sem standa á einstökum svæðum, t.d. í nágrenni Akureyrar eða í Hörgárdal, Öxnadal og Skagafirði, um línu frá Blöndu til Akureyrar. En það er auðvitað svo risavaxið í mínum huga ef í alvöru eru uppi áform um að leggja af stað með gríðarlega, að minnsta kosti 220 kílóvolta línu norður yfir Sprengisand, jafnvel með möguleika á að hækka síðan á henni spennuna og gera hana enn öflugri, sem ég veit að lúrir í bakgrunninum hjá vinum vorum í Landsneti, þeir eru alveg tilbúnir að vera svo stórhuga að hugsa sér að það þurfi jafnvel að skrúfa þetta upp og gera það enn stórkostlegra, og ef línan er hönnuð miðað við það þá er hún enn stærri og enn meira áberandi og fyrirferðarmikil. Það er framtíðarsýn sem ég get bara ekki hugsað mér. Ég sef ekki yfir þeirri tilhugsun að rölta um á miðhálendinu og ganga þar undir háspennulínur þvers og kruss, risavaxnar sem yrði engin leið að fela á tiltölulega flötum svæðum þegar kemur norður undir Nýjadal og norður á Sprengisand, þær mundu blasa við úr öllum hringnum frá jöklum, Vatnajökulsþjóðgarði, friðlandinu í Þjórsárverum o.s.frv.

Það er svo örlagarík og stór ákvörðun að ég sætti mig voðalega illa við að hún sé í þeim fasa og á þeim stað sem hún er nákvæmlega núna, það þýðir ekki að tala um það öðruvísi en það er, að Landsnet er greinilega að reyna að komast af stað með umhverfismat á þessari framkvæmd, dró Vegagerðina með sér í byrjun en Vegagerðin á hrós skilið fyrir það að hún bakkaði út úr því, pakkaði saman og er hætt, enda uppbyggður vegur yfir Sprengisand ekkert ofarlega í hennar forgangsröð, og þá stendur áfram Landsnet sem þrjóskast áfram með sinn undirbúning að umhverfismati. Ég tel að þetta sé á engan hátt boðlegt. Margt vantar upp á, það vantar þessa lagasetningu og þennan ramma, það vantar að staðfesta landsskipulagsstefnu fyrir miðhálendið í stað gamla svæðisskipulags miðhálendisins, sem er auðvitað úr sér gengið og til húðar. Ég tel í rauninni að 5. töluliður breytingartillögu meirihluta nefndarinnar sem kveður á um að tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku skuli lögð fyrir Alþingi eigi síðar en 15. október 2016, setji ákveðinn viðmiðunarpunkt í þessum efnum. Er ekki verið að segja að þangað til sú tillaga um framtíðarstefnuna er komin og Alþingi hefur fjallað um hana þá eigi ekki að halda áfram með stórar og afdrifaríkar ákvarðanir af því tagi sem undirbúningur undir Sprengisandslínu er? Það er algerlega óhæfa. Það vantar eiginlega allt. Það er allt í uppnámi sem að þessu kemur. Ekki er búið að staðfesta landsskipulagið, þessi lagarammi hefur ekki legið fyrir, nýju náttúruverndarlögin eru ekki komin í gildi, þó að styttist nú mjög í það sem betur fer, og síðan hefur Alþingi ekki fengið afrakstur þeirrar vinnu sem hér á að leggja upp með, sem er þá kerfisáætlun í fyrsta sinn til langs tíma og þingsályktun um stefnu stjórnvalda byggð á þeim grunni sem hér er verið að leggja. Þá verðum við væntanlega í allt öðrum færum til að setjast yfir og skoða það. Liggur þörfin fyrir? Er verjanlegt og réttlætanlegt, og út frá hvaða hagsmunum þá, að leggja miðhálendið undir háspennulínu? Það er auðvitað í lóðréttri andstöðu við til dæmis afstöðu ferðaþjónustunnar í dag. Hún er sameinuð og öll á móti því að fara með slíka mannvirkjagerð í gegnum hjarta miðhálendisins, hjarta landsins. Mér finnst alveg merkilegt hversu seint það gengur eiginlega að fá menn til að gefa því eyru þegar stærsta og mest vaxandi atvinnugrein landsins, sem aflar núna mest gjaldeyris og það svo miklu munar, talar með þeim hætti. Hvers vegna skyldu hagsmunir hennar þá ekki vera settir jafn ofarlega á listann og þjóðhagslegt mikilvægi hennar kallar á? Af hverju eru menn fastir í því að það skuli frekar vera hagsmunir orkufrekrar stóriðju í landinu sem eigi að hafa forgang þegar niðurstaðan er sú að orkufrek stóriðja leggur til minna en einn þriðja af þeim gjaldeyri sem ferðaþjónustan aflar í dag, nettó verður minna en einn þriðji eftir á móti ferðaþjónustunni þegar sá reikningur er skoðaður?

Virðulegur forseti. Ég hef eins og kunnugt er umtalsverðar efasemdir um ágæti þessa máls þó að það hafi aðeins batnað og mun ekki styðja það óbreytt.