144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[22:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu ýkja mikið, en mig langar í fyrra lagi að taka undir og fjalla aðeins um þær breytingartillögur sem minni hluti atvinnuveganefndar, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, leggur fram. Í raun er það svolítið dapurlegt að ekki skyldi takast samkomulag í atvinnuveganefnd um lagfæringar á þessari þingsályktunartillögu, þ.e. eftir að umræða um hana var stöðvuð og hún fór aftur inn í nefnd, í þeim anda sem þarna er lýst. Ég segi fyrir mitt leyti að væri svona um þetta búið þá væri ég prýðilega sáttur við málið. Ágreiningurinn er ekki djúpstæður ef út í það er farið. Ef ekki þyrfti meira til en þetta, að meta þegar meginflutningskerfið er um að ræða, sem er mest er undir hér í umræðunum, þá væri þetta alltaf metið og menn væru ekki að festa sig í einhver viðmið í þeim efnum, a.m.k. fyrir fram, heldur lægi fyrir samanburður og mat á því hvort gerlegt væri og réttlætanlegt að fara með rafmagnið í jarðstreng á viðkomandi línuleið eða einhverjum köflum á lengri leið, borið saman við loftlínur. Svo væru ákveðin viðmið sem menn hefðu til hliðsjónar varðandi það að réttlæta að velja dýrari kosti. Svo er hér tilgreint ef um væri að ræða þéttbýli, friðlýstar náttúruminjar eða svæði og svo í nágrenni við flugvelli o.s.frv. Sérstök tilvik af þessu tagi gætu réttlætt að víkja til hliðar viðmiðunum um hámarkskostnaðarhlutföll.

Ég gerði að umtalsefni við fyrri umr. þessa máls það sem ég tel líka vera mikinn veikleika, sem er sú nálgun að þjóðgarðar og friðlýst svæði eigi að ákveðnu marki að hafa sérstöðu í þessum efnum, að orðalagið er þannig að það er miðað við að farið sé um þjóðgarðana eða um hin friðlýstu svæði, sem má gagnálykta út frá á þann veg að þótt risavaxin háspennulína þræði þjóðgarðsmörkin en bara 50 m utan við þau þá sé það í lagi, þá sé það ekki lengur innan þjóðgarðsins. Þetta sjá auðvitað allir menn að nálgast ekkert þau viðmið sem menn hafa í dag í þessum efnum.

Sá sem hér talar kom dálítið að undirbúningi að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og var í þeirri nefnd sem vann tillögurnar í hendur stjórnvalda, ferðaðist um allt svæðið og fundaði með þeim aðilum o.fl. Við rákum okkur aftur og aftur á það, m.a. þegar við skoðuðum hvaða skilmálar væru lagðir til grundvallar flokkun alþjóðlega í þessum efnum, að almennt nálgast menn þetta þannig að það sé þjóðgarður eða algerlega friðlýst svæði með mismunandi stig verndar og ákveðin helgunarsvæði út frá því þannig að kannski 5 km belti utan við þjóðgarð sætir ákveðnum takmörkunum vegna þeirra áhrifa sem það hefur á þjóðgarðinn ef þar væri hægt að gera hvað sem er. Það vantar hér. Þess vegna er d-liður 2. töluliðs breytingartillögunnar mjög mikilvægur. Ég sakna þess að engum árangri skyldi náð í þeim efnum.

Meiri hlutinn leggur hér fram breytingartillögur í nefndaráliti sínu en kaus að skila ekki framhaldsnefndaráliti þrátt fyrir frekari vinnu að málinu og flutti engar frekari breytingartillögur. Þar er eingöngu breytt því að í staðinn fyrir kostnaðarviðmiðið einn á móti einum og hálfum þar sem bornir eru saman jarðstrengir og loftlínur, þá utan þeirra svæða sem til greina kemur að víkja frá þessum hlutföllum, er farið í einn á móti tveimur, þ.e. tvöfaldan kostnað. Á móti kemur að orðin „og rekstarkostnaður yfir líftíma mannvirkisins“ falla brott. Þá er spurningin: Þó að fljótt á litið virðist það til bóta að kostnaðurinn megi vera allt að tvöfaldur, er það framför frá því að taka með í reikninginn rekstrarkostnaðinn yfir líftíma mannvirkisins? Nú eru held ég að flestir séu sammála um að þar hefur jarðstrengurinn vinninginn en það er ekki víst að samanburðurinn sé mikið hagstæðari honum þó að þetta sé tvöfaldur kostnaður á móti einum og hálfum áður.

Þetta er ekki eina vandamálið í sambandi við það að setja yfir höfuð inn viðmiðanir af þessu tagi. Þá kemur spurningin: Hvernig fer samanburðurinn fram og hvað er borið saman? Það sem ég hef náð að fylgjast með þessari vinnu, þar á meðal á nokkrum fundum í atvinnuveganefnd sem ég sat sem varamaður, þá fékk ég aldrei nein svör við því hver aðferðafræðin ætti nákvæmlega að vera við samanburðinn. Það nægir að taka það einfalda dæmi að það er himinn og haf á milli þess að bera saman kostnaðinn við jarðstreng á einhverjum tilteknum kafla línuleiðar kílómetra á móti kílómetra borið saman við loftlínu eða að segja: Við erum hér með mikla framkvæmd langa leið, t.d. alla leið frá Blöndu að Kröflu eða frá Blöndu að Kröfu og áfram í Fljótsdal, þetta er risavaxin framkvæmd upp á milljarða og aftur milljarða — hvað eykur það heildarkostnað framkvæmdarinnar mikið þó að 10 eða 20 km fari í jörð? Ætlum við að bera saman þá tilteknu 10 km, kílómetra á móti kílómetra, jarðstreng á móti loftlínu eða ætlum við að segja: Hér erum við að bera saman tiltekinn bút og hver verður viðbótarkostnaðurinn við að fara með hann í jörð ef við lítum til mannvirkisins og kostnaðarins í heild sinni? Ég hef aldrei fengið svör við því hvernig menn ætla að nálgast þetta. Ég hef ástæðu til að ætla að Landsnet geti vel hugsað sér að þessi samanburður yrði þá alltaf kílómetri á móti kílómetra. Þá þyngist nú fyrir fæti, t.d. ef má ekki fara með línuna í jörð frá því einhvers staðar ofan og vestan við Akureyri, fram hjá bænum og þvert yfir Eyjafjarðarbotninn og upp undir Bíldshornsskarð. Það mundi gjörbreyta viðhorfum á því svæði til þeirra framkvæmda. Ef það er liður í því að koma á þessari framkvæmd, styrkingu byggðalínunnar frá Blöndu til Kröflu, um Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur og Skagafjörð, þá mundi það væntanlega skipta einhverju máli.

Þetta er mikill veikleiki, herra forseti, sem ég sætti mig illa við að skuli vera skilinn einhvern veginn eftir í þessum efnum. Úr því menn vilja fara þá leið, eins og meiri hlutinn vill, að þarna séu sett inn einhver kostnaðarviðmið sem má náttúrlega líka endalaust deila um hvar eigi að liggja, þá finnst mér ekki hægt annað en botna málið að einhverju leyti. Hvernig á að nota þau? Hvernig á samanburðurinn að fara fram? Svo velta menn líka fyrir sér á hvaða gögnum menn koma til með að byggja. Verða menn áfram háðir því algerlega að treysta á gögn og upplýsingar frá aðila sem er náttúrlega ekki hlutlaus í málinu, sem er flutningsfyrirtækið sjálft? Verður hægt að koma einhverjum óháðum aðilum þar að? Verða menn tilbúnir til þess að kaupa sér óháða sérfræðiráðgjöf? Verður einhverjum slíkum aðilum til að dreifa? Menn vísa á Orkustofnun. Hún hefur þarna hlutverki að gegna, en hún verður með ansi samsett hlutverk í þessum efnum ef hún á í senn að vera leyfisveitingaraðili, úrskurðaraðili og eftirlitsaðili. Hún verður ansi mörgum megin við borðið í þessum efnum. Hvergi koma til sögunnar einhverjir óháðir aðilar, t.d. gerðardómur eða úrskurðaraðilar, í ágreiningstilvikum eða þá að það verði til dæmis innbyggt í ferlið að þau gögn sem notuð eru til samanburðar skuli hafa sætt yfirferð af hálfu óháðs þriðja aðila, eitthvað í þeim dúr.

Það eru því miður, herra forseti, lausir endar á þessu enn þá og sumir býsna alvarlegir. Þó vil ég segja að ef það gæti orðið niðurstaðan, samanber breytingartillögur við frumvarpið um kerfisáætlun sem nú hefur verið dreift, að menn sammæltust um að öll ákvarðanataka varðandi mögulegar línulagnir um miðhálendi Ísland yrði geymd þangað til hinn nýi grundvöllur hefði að fullu verið lagður og Alþingi fjallað um framtíðarstefnuna sem á núna að fara að efna á grundvelli þessa málatilbúnaðar, þ.e. fengi það í sínar hendur haustið 2016 og fjallaði um það, þá væri það gríðarleg úrbót að þessu leyti fyrir mörg okkar og mundi held ég róa mjög marga í sambandi við þetta mál.

Herra forseti. Þetta var það sem ég vildi koma hér á framfæri og skal ekki orðlengja um það frekar.