144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

störf þingsins.

[10:06]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Enn á ný berast okkur fréttir af því að félagslegi túlkasjóðurinn sé tómur. Það er að verða viðvarandi ár eftir ár að þessi sjóður tæmist. Heiðdís Dögg Eiríksdóttir, formaður Félags heyrnarlausra, skrifaði grein í morgun á visir.is og mig langar að vitna í hana, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld binda á okkur hendurnar og við getum ekki sinnt skyldum okkar sem húseigendur, foreldrar, skattgreiðendur, ættingjar og fleira. Í ár ákvað mennta- og menningarmálaráðuneytið að skipta fjármagninu í fjóra fjórðunga. Ekki veit ég hvernig stærðfræðikunnáttan er hjá þeim, þetta er ósköp einfalt, fjármagnið endist ekkert lengur frekar en hin árin. Hlutverk og skyldur okkar minnka ekkert þó því sé skipt í fjóra fjórðunga.“

Hæstv. forseti. Það má vísa til þess að þetta sé algjört brot á því grundvallarsjónarmiði sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks byggist á og hefur að meginmarkmiði að fatlaðir geti tekið fullan og virkan þátt í samfélaginu án aðgreiningar og að tryggja þeim aðgang án mismununar að hinni og þessari þjónustu sem heyrnarskert fólk á rétt á en fer á mis við ef það nýtur ekki þessarar túlkunar. Íslenska ríkið verður að sýna að það meini eitthvað með því þegar það segir að það ætli að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og tryggja fötluðu fólki þann lágmarksrétt sem hann mælir fyrir um. Peningar sem þarf í þennan sjóð eru hlægilegir smámunir miðað við þá miklu hagsmuni og réttindi þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda og miðað við hversu mikilvæg mannréttindi eru í húfi sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks áréttar í hverju orði.

Hæstv. forseti. Ég skora á hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að bæta úr þessu strax og bæta peningum í þennan sjóð. Við getum ekki boðið þessu fólki upp á að hafa ekki túlkaþjónustu í heilan mánuð, það er algjörlega óforsvaranlegt. (BirgJ: Til skammar.)