144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

störf þingsins.

[10:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Af því að þessi liður heitir Störf þingsins þá ætla ég að byrja á því að gleðjast yfir dagskrá þessa fundar borið saman við það sem verið hefur undanfarnar vikur, það bregður verulega til betri tíðar með það að kominn er fjöldi mála á dagskrá sem þingið getur tekist á við. Mér er auðvitað efst í huga eins og fleirum staðan á vinnumarkaði og verkfall hjúkrunarfræðinga sem skall á núna á miðnætti síðastliðnu. Með því er ljóst að það eru að skapast alvarlegri aðstæður í heilbrigðiskerfi okkar en væntanlega hafa verið uppi um áratugaskeið. Ég var að hlusta á framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítala í útvarpinu í morgun og manni er verulega brugðið. Þrátt fyrir að allt sé reynt sem mögulegt er innan þessa þrönga ramma til að tryggja öryggi þá bætist þetta ástand ofan á fimm, sex vikna verkföll geislafræðinga, líffræðinga og fleiri sem hafa lamað starfsemi sjúkrahúsanna að verulegu leyti og það bætist aftur ofan á afleiðingar af læknaverkfallinu sem heilbrigðiskerfið var á engan hátt búið að vinna upp. Þannig að fyrir liggja mjög langir og erfiðir biðlistar sem vandséð hvenær verði unnið á.

Ríkið er viðsemjandi þessara hópa. Það getur ekki nálgast málin þannig að ekki sé við þá talað og komi ekki til greina að semja við þá á sjálfstæðum forsendum á grundvelli þess samningsréttar sem þeir hafa, til að mynda að mæta á einhvern hátt eða a.m.k. taka fyrir kröfur þeirra, sérkröfur um að menntun sé metin inn í þeirra störfum. Yfirlýsingar af því tagi sem hæstv. forsætisráðherra hefur gefið eru auðvitað lítilsvirðing við þann sjálfstæða samningsrétt og ég er undrandi á því að það skuli ekki hafa valdið meiri stormi í samfélaginu að forsætisráðherra hefur nánast sagt: Það verður ekki talað við þetta fólk, það verður ekkert samið við það fyrr en fyrir liggur hvernig almenni vinnumarkaðurinn leggur sig, og bætir svo við ásökunum um að forustumenn í verkalýðshreyfingunni gangi pólitískra (Forseti hringir.) erinda jafnvel á kostnað hagsmuna umbjóðenda sinna. Það er náttúrlega ekki (Forseti hringir.) gæfulegt þegar oddviti ríkisstjórnar leggur þetta í púkkið til lausnar á málum.