144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

störf þingsins.

[10:24]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar til að ræða þau mál sem hafa verið hér til umfjöllunar varðandi það sem gerðist hér fyrir utan í gær og það sem fólkið úti á Austurvelli var að spyrja um og krefjast. Það er meðal annars um það umboð sem við sem þingmenn höfum hér innan húss. Hvert er það og hvernig ber okkur að fara með það?

Meiri hlutinn er ekki talinn fara vel með það vald sem hann hefur og hér var sagt að farið væri illa með auðlindir, það vantaði lýðræðisumbætur, það væri verið að mylja niður heilbrigðiskerfið o.s.frv. Þetta er upplifun fólks, sama hvað okkur þingmönnum finnst og okkur ber að gera okkar besta til að reyna að laga það.

Eldri borgarar og öryrkjar eiga ekki að þurfa að lepja dauðann úr skel, margir hverjir, eins og við stöndum frammi fyrir. Launaójöfnuðurinn er enn þá allt of mikill og við getum lagt okkar af mörkum í því, ríkið sem viðsemjandi við okkar stéttir, sem eru mestmegnis kvennastéttir, sem eru í launabaráttu. Það á ekki að vera svo að fólkið okkar sé hrætt við að veikjast eða eldast eða hvað það nú er sem það stendur frammi fyrir í ljósi þess að hér eru verkföll og fólki vísað frá. Framtíðin lítur einhvern veginn þannig út fyrir mjög mörgum, allt of mörgum. Mig langar til að segja við hæstv. ríkisstjórn og forsætisráðherra sem hér vildu helst skipta um þjóð að það er bara ekki svo. Við verðum þá að skipta út forustumönnum ríkisstjórnarinnar því þeir virðast vera án tengsla við þjóð sína.

Hér var spurt í gær hvort það væri ósanngjörn krafa að standa við gefin loforð og fara að lögum og er þá væntanlega átt við rammalöggjöfina. Þá var spurt hvort það væri ósanngjörn krafa að fólk fengi greidd lágmarkslaun sem ættu að duga fyrir framfærslu. Það var líka sagt að það væri ósanngjarnt að þjóðin fengi ekki að njóta arðs af auðlindum sínum. Allt eru þetta málefni sem ég held að við getum verið sammála um, að minnsta kosti höfum við í minni hlutanum talað fyrir þeim og við viljum að sjálfsögðu að við þetta verði staðið.