144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

störf þingsins.

[10:26]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ótímabundið verkfall hjúkrunarfræðinga hófst á miðnætti og hefur áhrif víða á heilbrigðisstofnunum. Um 2.100 hjúkrunarfræðingar fara í verkfall en um 500 starfsígildum verða á undanþágum meðan á verkfalli stendur til að sinna brýnustu þörf.

Landlæknir, Birgir Jakobsson, hefur sagt að verkfallsaðgerðir hjúkrunarfræðinga ofan á önnur verkföll í heilbrigðiskerfinu muni stofna lífi og heilsu sjúklinga í hættu. Það er óásættanlegt, enda er þungt hljóð í mörgu fólki sem hefur valið að sinna þeim störfum sem snúa að lífi og heilsu fólks og gerir það af mikilli hugsjón.

Eðli verkfalla er því miður þannig að oft bitnar það ekki síður á öðrum en þeim sem vinnudeilan beinist að, auk þess sem verkföll ólíkra starfsstétta hafa misalvarleg áhrif á gangverk samfélagsins. Þess vegna er verkfallsvopnið beitt og vandmeðfarið. Auðvitað eiga sjúkir og þurfandi að vera í algjörum forgangi þegar verkfallsástand ríkir.

Það hillir undir samninga á almennum vinnumarkaði og það er fagnaðarefni en í verkföllum er svo miklu fórnað og svo mikið lagt undir að þau verða að skila þeim sem þessa baráttu heyja árangri. Það skiptir langmestu máli að tryggja kaupmátt launa sem fólk aflar. Það er fjarstæða að knýja fram miklar launahækkanir sem brenna svo upp samstundis á verðbólgubálinu. Við Íslendingar þekkjum slíkar kjarabætur af biturri reynslu. Til að verja kaupmátt er lykilatriði að þeir kjarasamningar sem nú er verið að gera séu með því markmiði að halda þeim stöðugleika sem ríkir í efnahagskerfinu.