144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er í fréttum í dag að Skipulagsstofnun hefur fallist á beiðni Vegagerðarinnar um að endurskoða umhverfismat á vegi um Teigsskóg í Þorskafirði og vil ég lýsa ánægju minni með þá niðurstöðu. Tekur sú ákvörðun mið af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á legu vegarins og hönnunar á þverun yfir Djúpafjörð og Gufufjörð. Eins og landsmenn margir vita hafa staðið miklar deilur um framtíðarlegu Vestfjarðavegar um Gufudalssveit í Austur-Barðastrandarsýslu. Skipulagsstofnun lagðist gegn vegi um Teigsskóg árið 2006 og síðan þá hafa verið uppi miklar deilur um vegarstæði. Reynt hefur verið að finna annað vegarstæði, hvort sem það væri um hálsana eða jarðgöng, og engin niðurstaða komið út úr því. Heimamenn hafa lagt mikla áherslu á að fá láglendisveg um þetta svæði og er auðvitað mjög skiljanlegt að fólk vilji láglendisveg miðað við hvernig veður geta orðið á þessu svæði á Vestfjörðum og þar sem jarðgöng hafa ekki verið í boði þá er þetta mjög ánægjulegt. Þessi breytta veglína um Teigsskóg hefur í för með sér miklu minni skerðingu á Teigsskógi en fyrri áform gerðu ráð fyrir. Útfærslan þýðir um 1% rask á gróðurlendinu, sem ég tel vera mjög ásættanlegt miðað við þá miklu hagsmuni sem þarna eru undir fyrir íbúa svæðisins, og ég vona að þetta gangi allt vel eftir.