144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[10:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en ég fagna því að þessi breytingartillaga hefur komið fram. Hún er í ríku samræmi við ræður mínar í gærkvöldi þegar við ræddum þetta. Í þeirri umræðu kom skýrt fram að það var mín afstaða í reynd, bæði gagnvart þessu máli hér og hins vegar því máli sem við höfum svolítið tekist á um síðustu dægur, þ.e. um rammaáætlunina, að víglínan í þessum efnum, eins og ég leyfði mér að orða það þá, ekki við hrifningu allra, liggur ekki um neðri hluta Þjórsár heldur um mörk hálendisins. Þannig nálgast ég þetta mál. Ég tel að það sé stóra málið sem við þurfum að ræða um þegar við erum annars vegar að ræða um nýtingu og hins vegar um verndun.

Ég sagði í umræðunni hér í gær að ég teldi að það þyrfti alveg sérstaklega að skoða það frumvarp sem hér er undir með tilliti til þess hvað það opnar á gagnvart miðhálendinu. Ég er ekki fyllilega sáttur við þetta frumvarp, segi það bara eins og það er. Mér finnst vera allt of sovéskur blær á því og það er allt of sterk völd sem eru færð til flutningsfyrirtækisins og það er allt of mikið vald sem er tekið af sveitarfélögunum. Þegar ég gagnrýndi þetta frumvarp hér við fyrri umræður, reyndar við 2. umr., sagði ég strax að ég væri enn ekki orðinn sáttur við frumvarpið. Mér finnst völdin sem það færir fyrirtækinu, sem þarf eðlilega og oft með ærnum erfiðismunum að leggja línur til að koma rafmagninu um landið, allt of mikil.

En þó að þetta frumvarp hafi breyst til batnaðar með þeim breytingartillögum sem gerðar voru í kjölfar þeirrar hörðu umræðu sem hér var við 2. umr. málsins þá er ég samt ekki ánægður. Samt sem áður er staðan enn þá þannig að ef flutningsfyrirtæki leggur fram kerfisáætlun til 10 ára verður sveitarfélag að haga skipulagi sínu um landnýtingu eftir því innan þriggja ára en getur fengið átta ára frest ef flutningsfyrirtækið veitir jákvæða umsögn. Fyrir parlamentarískan pedant eins og mig þá er þetta nú það fyrsta sem menn ættu að stoppa við. En hitt er svo það, eins og kemur skýrt fram í nefndaráliti meiri hlutans, að þó að sveitarfélagið vilji ekki breyta skipulagi sínu þá verður það samt vesgú að gera það.

Hvað segja fríþenkjarar hér í þessum sal gagnvart svona valdboðsfrumvarpi? Það er nú kannski skiljanlegt að maður með mína fortíð mundi samþykkja það, en ég velti því fyrir mér hvað þeir sem hafa boðað frjálsa hugsun og sitja hér í þessum sal segja um þetta mál.

Í öllu falli dró ég upp scenario sem mér þótti ekki fallegt. Það var svona:

Hér eru menn búnir að vera að tala um það, og ekki síst flutningsfyrirtækið, að nauðsynlegt sé að leggja línu yfir Sprengisand. Þá gæti komið upp sú staða að sveitarfélögin beggja vegna þess góða sands væru því andsnúin. Þá fá þau, ef flutningsfyrirtækið leyfir? Átta ára frest, en hvað svo? Flutningsfyrirtækið ræður. Ekki sveitarfélögin. Það finnst mér alveg svakalegt, ég verð að segja það, vegna þess að ég tel að náttúruverndarumræðan muni á næstunni snúast um það hvort við ætlum að fara inn á miðhálendið. Ég er ekki að gefa mér neitt í þeim efnum, ég veit að meira að segja í mínum flokki eru menn sem bæði vilja það og aðrir sem vilja það ekki. En við sáum glitta í það í rammaáætluninni, sem við ræddum í breytingartillögu meiri hlutans, hvað var í bígerð. Þar var fyrsta virkjunin inni á miðhálendinu sett inn á borð alþingismanna og við vitum að það eru tvær aðrar skammt þar fyrir ofan. Gott og vel. Þær mundu þurfa raforkulínur, þær mundu þurfa uppbyggða vegi og þá er skammt í að menn setji hundinn yfir sandinn. Það er þetta sem ég er hræddur við vegna þess að ég tel að þjóðin eigi að taka umræðu um þetta. Þetta er prinsippafstaða sem menn þurfa að taka gagnvart náttúruvernd og nýtingu.

Það er þess vegna sem ég lýsti fullum fyrirvara við þetta mál sem hér er verið að ræða um. Við áttum um það samræður hér nokkur yfir þetta púlt í gær að það væri mjög til bóta fyrir málið ef fram kæmi breytingartillaga í þá veru sem ég sé nú að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hefur lagt fram með félögum sínum og var að mæla fyrir í þeim svifum sem forsjónin bar mig á vængjum sínum hingað inn í þennan sal, svo að ég varð þessa áskynja því að ég vissi ekki af þessu.

Ég vil bara nota þetta tækifæri, ástkæri forseti, til að lýsa einstökum stuðningi mínum — ég er ekki að tala fyrir hönd neinna vandamanna, en þessa tillögu ætla ég að styðja.