144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

samningur hafnríkja til að uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar.

451. mál
[10:52]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi málið sem slíkt fela efnisatriði samningsins kannski ekki í sér nýjar heimildir fyrir íslensk stjórnvöld miðað við það sem verið hefur á undanförnum árum, þ.e. við höfum í meginatriðum tekið upp þær reglur og viðmiðanir sem samningurinn felur í sér nú þegar. Það að fullgilda samninginn fyrir okkar hönd og innleiða hann með formlegum hætti í íslenska löggjöf styrkir auðvitað stöðu okkar, við getum sagt á alþjóðavettvangi. Eins og í öðrum efnum skiptir máli fyrir okkur að sem flestir séu með, taki þátt í þeirri sameiginlegu stefnumörkun sem í samningnum felst. Þannig er ég sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að gagnvart þeim veiðum sem hann vísar til í máli sínu verður staða okkar vissulega sterkari þó að samningurinn feli ekki í sér sem slíkur nýjar heimildir eða áður óþekktar fyrir íslensk stjórnvöld að því marki sem lögsaga þeirra nær til.