144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

samningur hafnríkja til að uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar.

451. mál
[10:55]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi hina beinu spurningu sem hv. þingmaður beindi til mín um að ræða þessi mál við hæstv. utanríkisráðherra þá tek ég undir að ástæða er til þess, og jafnframt hæstv. atvinnuvegaráðherra sem fer með marga þætti í framkvæmd þessara mála eins og menn þekkja. Ég tel að fullt tilefni væri til þess að eiga fund við þá um þessi efni.

Það sem hv. þingmaður vekur líka athygli á varðandi stöðu samnings af þessu tagi er það auðvitað hárrétt að til að þessi samningur taki formlega gildi þarf tiltekinn fjöldi aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna að gerast aðili að honum og fullgilda hann og það að við skulum stíga þetta skref núna hlýtur að fela í sér ákveðna hvatningu til annarra að gera hið sama.

Það er síðan almennt um þetta mál að fyrir okkur sem fiskveiðiþjóð skiptir mjög miklu máli að löggjöf sem gildir um höfin og réttindi og skyldur ríkja þar sé sem skýrust. Það hefur verið stefna íslenskra stjórnvalda um langt skeið að vera í fararbroddi í sambandi við að, við getum sagt koma lögum yfir veiðar á úthafinu og þarf ekki að fara mörgum orðum um þá miklu hagsmuni sem í því eru fólgnir fyrir okkur miðað við staðsetningu landsins og efnahagslega hagsmuni af fiskveiðum að sem flestir taki þátt í þessu og að reglur af þessu tagi séu virtar af sem flestum þjóðum.