144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2015.

609. mál
[11:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Danir og Grænlendingar eru meðal okkar allra bestu grannþjóða og við eigum að leggja ríkt á um hvers konar samstarf við þær þjóðir. Um það höfum við reyndar nokkrir þingmenn flutt sérstaka þingsályktunartillögu, sem eins og mörg önnur góð mál hefur ekki fengist tekin fyrir á dagskrá þingsins og verður þá endurflutt síðar, sem er auðvitað miður.

Íslendingar hafa alltaf haft mjög náið samstarf við Færeyinga á sviði fiskveiða. Það hefur hjálpað okkur mikið í áranna rás, það hefur gert okkur kleift að veiða ýmiss konar uppsjávarfiska að verulegu leyti innan landhelgi þeirra og við höfum veitt þeim margvíslegan gagnkvæman rétt.

Ég vek eftirtekt á því að á sínum tíma má segja að sjávarútvegur á Íslandi hafi farið í gegnum tæknibyltingu, sem með vissum hætti var stýrt af Færeyingum. Þetta var á þeim árum þegar við vorum að kaupa okkur stærri skip og Íslendingar á þeim tíma lærðu mjög mikið af færeyskum skipstjórnarmönnum sem komu hingað í hundraðatali, jafnvel þúsundatali, til að vinna við íslenskan sjávarútveg, einkum og sér í lagi á Austfjörðum, og ílentust margir. Það er þess vegna sem það eru svo margir Færeyingar sem hafa þegnrétt á Íslandi í dag og eru kannski svolítið teknir að hníga að aldri en hafa verið góð viðbót við íslenskt samfélag.

Við höfum á vissan hátt endurgoldið vináttu Færeyinga og gott samstarf á sjávarútvegssviðinu. Það er sjálfsagt að rifja það upp að upp úr 1990, þegar Færeyingar gengu í gegnum erfiða fjárhagskreppu, sem leiddi til þess að þriðjungur Færeyinga fluttist í burtu, voru Íslendingar raunar líka að fara í gegnum óvænta kreppu, sem reyndist dýpri og meiri þegar hún var skoðuð síðar, og menn áttu enga von á þá. Á þessum árum brugðumst við Íslendingar eigi að síður við af náungakærleik og grannaást við kreppu frænda okkar með því að við gáfum þeim 30 þúsund tonn af loðnu. Mér hefur alla tíð síðan fundist sem við höfum ekki verið nógu stórhuga gagnvart þeirri gjöf vegna þess að íslenskir útgerðarmenn komu því svo fyrir að það voru settar á hana alls kyns kvaðir, m.a. til þess að koma í veg fyrir að Færeyingar gætu á einhvern hátt skákað Íslendingum á þá nýfundnum mörkuðum í Japan fyrir loðnuhrogn. Ég hef alltaf, bæði sem utanríkisráðherra og með öðrum hætti, verið þeirrar skoðunar að þessi gjöf okkar til Færeyja eigi að hafa miklu lausari umbúnað en við höfum gert og ekki þótt það fallegt hvernig útgerðin hefur alltaf verið að jagast í þessu og reynt að fá þetta til baka. Þetta var gjöf.

Þeir hafa síðan fyrir sitt leyti mörgum sinnum endurgoldið það og má kannski rifja upp það vinarbragð sem þeir sýndu okkur þegar Íslendingar lentu í hremmingum bankahrunsins og þeir fyrstir þjóða buðust til þess að taka þátt í að efna til þess gjaldeyrisláns sem við þurftum þá til að komast aftur upp á hnén og síðan lappirnar og tóku enga vexti fyrir, öfugt við ýmsa aðra.

Það má segja að sá samningur, sem við gerum árlega, undirstriki reglulega samstarf okkar á þessu sviði. Það má líka rifja upp að hér hefur það gerst í áranna rás að aftur og aftur hafa menn risið upp á Alþingi og séð ofsjónum yfir því að við heimilum þeim, í takt við stöðu botnfiskstofna okkar, að koma hingað og taka ákveðið magn af botnfiski. Í ár eru þetta 5.600 lestir. Ég hef alltaf verið í hópi þeirra sem hafa algjörlega mælt gegn því að með nokkru móti verði hróflað við því. Við eigum að hafa þennan hátt á og við höfum notið þess á margvíslegan hátt. Það eina sem ég hef tekið þátt í, og reyndar mælt fyrir á sínum tíma, var að banna þeim að veiða lúðu hér á haukalóð vegna þess að lúðustofninn var þá kominn í þá stöðu að ekki var hægt, taldi ég, að leyfa beina sókn í það. Sú barátta tók nokkur ár en það varð að veruleika. Færeyingar voru ekki glaðir yfir því en vitaskuld verða þeir, eins og við, að fara að öllum þeim reglum sem fylgja ber um sjálfbærar veiðar.

Eins og fram hefur komið í máli framsögumanns styð ég þetta mál og rita undir álit nefndarinnar á því fyrirvaralaust. Ég vildi hins vegar koma hér upp til að ítreka afstöðu mína enn og aftur til þessa góða samstarfs sem við höfum átt við Færeyjar og nauðsyn þess að við höldum því áfram og slökum hvergi á. Allt það sem mönnum finnst stundum að við höfum gefið Færeyingum hafa þeir borgað margfalt til baka með aðgangi að sinni eigin efnahagslögsögu. Og það er gleðiefni, herra forseti, að í dag er góður gangur í færeyskum sjávarútvegi, þeim hefur tekist vel að ná tökum á ýmiss konar vanda sem var við að glíma í sjávarútvegi. Þeir hafa líka náð tökum á því afbrigði sjávarútvegs sem fiskeldið er. Hvort tveggja hefur þetta leitt til þess að efnahagur Færeyinga stendur miklu styrkari fótum en áður og að þeir eru sannarlega verðugir að vera taldir í hópi stórvelda í sjávarútvegi á þessum parti og jaðri Atlantshafsins.