144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2015.

609. mál
[11:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég hef svo sem ekkert við það að athuga að þessi þingsályktunartillaga um staðfestingu á árlegum samningum okkar og Færeyinga um fiskveiðimál sé hér fram lögð með þessum hætti og gerð grein fyrir henni. Ég sakna þess þó, það hefði verið ágætt og hefði alveg átt heima alveg í þessari umræðu, að utanríkismálanefnd eða framsögumaður hennar geri okkur grein fyrir því ef utanríkismálanefnd hefur rætt eitthvað almennt um stöðuna og stóru myndina í þessum efnum. Það fór lítið fyrir umræðum um það. Einhverjir mundu segja að það ætti kannski betur heima í almennum umræðum hér um utanríkismál eða í tengslum við skýrslu utanríkisráðherra, en á einhverjum tímapunkti finnst mér óhjákvæmilegt að aðeins séu látin orð falla hér um ýmsa þætti sem hafa verið að breytast í þessum samskiptum, þar á meðal og ekki síst okkar og Færeyinga.

Sá sem hér talar er mikill Færeyjavinur og (ÖS: Mestur.) hefur staðið dyggilega vörð um þær veiðiheimildir sem Færeyingar hafa haft hér af sögulegum forsendum allt frá því að við færðum út landhelgina og eru næsta einstæðar í samskiptum þjóða. Í grunninn voru þær á löngu, löngu árabili algjörlega einhliða, þ.e. við leyfðum Færeyingum að viðhalda nokkrum beinum veiðiheimildum innan fiskveiðilögsögunnar eftir að hún hafði verið færð út og var það til marks um vinskap og gott samstarf þessara þjóða. Ég stóð gegn því ásamt fleirum þegar hreyfing var komin á það upp úr 1990 að fella niður bolfisksveiðiheimildir Færeyinga og svo var komið að meira að segja Landssamband íslenskra útvegsmanna var komið með þá afstöðu og stefnu. Ég taldi það mikla skammsýni og ósanngjarnt í garð okkar góðu granna. Allmikill fjöldi lítilla fjölskylduútgerða í Færeyjum, línubátaútgerða, byggir að verulegu leyti tilvist sína á þessum takmörkuðu veiðiheimildum á Íslandsmiðum. Það tókst með góðra manna samstarfi, ekki skipti þar minnstu máli að þá var komið til sögunnar Vestnoræna þingmannaráðið og þau tengsl sem voru milli stjórnmálamanna á Íslandi og Færeyjum og Grænlandi voru gagnleg í þeim efnum að standa vörð um að ekki yrði hróflað við þessum góðu samskiptum.

Svo liðu árin og allt í einu snerist dæmið að talsveru leyti við og aðgangur sem Íslendingar höfðu að færeysku lögsögunni á grundvelli þessara samskipta varð okkur gríðarlega dýrmætur á árunum þegar við vorum að sækja okkur á nýjan leik aflareynslu í norsk-íslenskri síld, sem aftur leiddi til þeirrar hlutdeildar sem við höfum í þeim veiðum. Þá viðurkenndu menn að það hefði sennilega verið skammsýni ef menn hefðu farið að troða illsakir við Færeyinga á þessum árum, þó að vissulega væri frekar erfitt í ári hjá okkur sjálfum hvað varðar bolfisksveiðarnar.

Þetta allt saman breytir ekki því að það þarf að ræða af einurð ákveðna hluti sem nú hafa gerst í þessum samskiptum. Á tveimur árum hefur orðið veruleg breyting frá því að Íslendingar og Færeyingar voru í raun og veru nánast að öllu leyti samferða í átökum við aðrar þjóðir, t.d. um veiðiheimildir í makríl og eftir atvikum norsk-íslenskri síld og fleiri deilistofnum, yfir í þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir í dag og hér hefur lítið verið nefnd, sem er sem sagt sú að Færeyingar hafa gert samkomulag við Evrópusambandið og Noreg um hlutdeild sína í makríl. Ekki er ég að öfundast yfir því að Færeyingar styrki grundvöll sinn í þeim efnum. Þeir höfðu ríka kröfu til þess sem strandríki að krefjast einhverrar sanngjarnrar hlutdeildar líka af makrílkvótanum. En vandinn er sá að Ísland var skilið eftir út undan og er án samnings. Það strandar merkilegt nokk ekki lengur á andstöðu Evrópusambandsins heldur á andstöðu Noregs og samningur Færeyinga við þessa aðila hjálpar ekki til í þessum efnum og hefur sett Ísland í erfiðari stöðu. Þar við bætist að Færeyingar tóku sér einhliða mun hærri hlutdeild í veiðiheimildum norsk-íslenskrar síldar en þeir höfðu haft samkvæmt samningum og Ísland sem keppinautur á því sviði getur auðvitað ekki alveg horft fram hjá því að nú hafa mál skipast þannig að okkar leiðir liggja ekki saman með sama hætti hvað varðar nýtingu á mikilvægum tegundum.

Þetta er visst áhyggjuefni séð í ljósi þeirra þéttu og góðu samskipta sem alltaf hafa verið milli Íslands og Færeyja í þessum efnum. Það mætti jafnvel bæta grálúðunni við. Það voru líka vonbrigði að eftir áralangt þref tókst loksins að ná samningum milli Íslands og Grænlands um skiptingu grálúðustofnsins en Færeyingar undu ekki þeirri hlutdeild sem við og Grænlendingar töldum sanngjarna og eðlilega í þeirra hlut og hafa ekki gerst aðilar að þeim samningi.

Þær veiðiheimildir sem í þessum samningi eru, upp á 5.600 lestir af botnfiski og 30.000 lestir af loðnu, miðað við kvóta upp á 500.000 tonn eru í grunninn einhliða veiðiréttindi Færeyinga á Íslandsmiðum. Það dregur lítið upp á móti því, 1.300 lestir af makríl og 2.000 lestir af annarri síld en norsk-íslenskri innan færeysku lögsögunnar sem hefur nýst í takmörkuðum mæli, Hjaltlandssíld eða hvað það ætti að vera. Á móti kemur auðvitað mjög verðmætur aðgangur fyrir Ísland. Það er kannski gagnkvæmnin sem fyrst og fremst felst í samningnum, að við höfðum þó þann aðgang sem raun ber vitni varðandi veiðar á kolmunna, sem m.a. standa nú yfir þessar vikurnar í færeysku lögsögunni, og ákveðnar heimildir í norsk-íslenskri síld.

Þetta liggur svo sem fyrir. Á þessu eru ekki breytingar. Það er ekki af þeim ástæðum sem ég er að taka þetta upp sérstaklega hér, heldur vegna hins að ég tel að það verði að hafa augun á og menn verði að ræða samskiptin á almennum forsendum. Það væri dapurlegt ef þau væru heldur að stirðna, eins og mætti ætla af þessum dæmum sem ég hef nefnt, á sama tíma og verulegur árangur hefur á hinn bóginn náðst í að bæta samskipti Íslands og Grænlands með samningnum um grálúðuna, með samningnum um rækjuveiðar á Dohrn-banka og árlegum samstarfssamningi sem er virkur og nýttur á milli landanna.

Að þessu verður að hyggja og ég tel að utanríkismálanefnd og eftir atvikum atvinnuveganefnd þurfi að vera sér meðvitaðar um að það er ekki sjálfgefið að þessi samskipti framlengist að öllu leyti óbreytt þegar þetta er haft í huga. Það verður að ræða af einurð þá hluti sem máli skipta þegar í hlut eiga sjávarútvegssamskipti í heild sinni milli þessar góðu granna.