144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2015.

609. mál
[11:56]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég tel að þetta sé frábært tilefni til þess að fara aðeins yfir ýmislegt úr sögu þessara mála. En af því að hv. þingmaður nefndi samninga um norsk-íslenska síldarstofninn þá er rétt að rifja það upp að sá ágæti maður sem enn á eftir að bera til grafar, Halldór Ásgrímsson, náði fínum samningum á sínum tíma. Þá rifja ég það upp fyrir hv. þingmanni að honum þótti það heldur betra þegar hann stóð í þeim samningum hvernig ég og hv. þingmaður, aðallega við tveir, jöguðumst í honum dag út og inn fyrir að standa sig ekki betur í samningum, vegna þess að hann sagði: Það hjálpar mér í Noregi.

Hitt verð ég að segja að eftirmaður hans í sama flokki, Gunnar Bragi Sveinsson, hæstv. utanríkisráðherra, hafði ekki sömu kné og sá ágæti pólitíski beljaki þegar kom að makrílnum. Það er rétt að rifja það allt saman upp. Dettur einhverjum manni í hug eins og hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að sendinefnd Íslands í Edinborg hafi ekki vitað af þessu? Auðvitað vissi hún af þessu. Þetta voru reyndustu samningamenn Íslands, einhver mest fljótandi og besti diplómatinn í utanríkisþjónustunni var þar, og sá maður sjávarútvegsráðuneytis megin sem ég taldi best fallinn og fagnaði mjög þegar hv. þingmaður valdi hann til forustu í samninganefndinni. Auðvitað vissu þeir af þessu og auðvitað komu þeir þessu til sinna manna, það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það.

Málið var einfaldlega þetta: Íslenskir þingmenn urðu þessa mjög snemma áskynja. Þetta var rætt sérstaklega á fundi, aukafundi í utanríkismálanefnd, sem var haldinn, ef ég man rétt, síðla dags, þar sem menn ræddu þetta. Og hæstv. utanríkisráðherra kom að sjálfsögðu ekki til þess fundar því að hann var önnum kafinn þá viku eins og ég kem að síðar. En sendimenn hans á þeim fundi fengu það algjörlega skýrt, a.m.k. frá þeim sem hér stendur, að við þessar aðstæður ætti hæstv. utanríkisráðherra að kasta öllu frá sér og fara til Færeyja og tala við sína kollega. Það hafa íslenskir ráðamenn fyrrum gert ef mönnum hefur þótt sem klakinn væri eitthvað að verða holur undir samstarfi þessara tveggja þjóða. Allt væri að teikna sig til þess að þetta væri að gerast og það væri þetta sem Norðmenn hefðu unnið að, að einangra Íslendinga algjörlega.

Hvað var að gerast þessa viku? Hæstv. utanríkisráðherra, sem forklúðraði þessu máli, sennilega eitthvert mesta klúður sem ríkisstjórnin hefur gert sig seka um á þessu kjörtímabili og er þó af mörgu að taka, var nefnilega í öðrum leiðangri. Þetta var vikan sem taugakerfi hæstv. utanríkisráðherra brast þegar hann sá og las skýrsluna sem hann sjálfur hafði pantað um aðildarumsókn okkar gagnvart Evrópusambandinu. Þetta voru dagarnir þegar hann var að knýja fram tillöguna um slit á viðræðum. Hann var sem sagt upptekinn við annað, hann var svo upptekinn við pólitísk hugðarefni að hann svaf á verðinum og hann sinnti ekki þessum hagsmunamálum Íslendinga. Ég er ekki að segja að honum hefði tekist að bjarga málunum, en hefði hann á þeim tíma farið til Færeyja og talað við færeyska ráðamenn, við lögþingið, og höfðað til þess gamla samstarfs sem við höfum alltaf átt við Færeyinga á þessu sviði, hefði hann a.m.k. skapað hjá þeim sviða niður fyrir þind, en þeir fengu ekki einu sinni samviskubit, það var aldrei horft í augun á þeim.

Ég sagði þá í umræðum hér að hæstv. utanríkisráðherra hefði sofið á verðinum og klúðrað makrílmálinu. Ég er enn þeirrar skoðunar að hann hefði getað gert miklu, miklu meira. Þetta vil ég segja í tilefni af þessari umræðu og sagan mun svo leiða síðar í ljós með hvaða hætti hæstv. utanríkisráðherra var gert uppskátt um hvað fyrir dyrum var hjá Færeyingum, sennilega á öðrum degi.