144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

samningur milli Grænlands og Íslands um stjórnun rækjuveiða á Dohrnbanka.

610. mál
[12:02]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Grænlands og Íslands um stjórnun rækjuveiða á Dohrnbanka.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Birgi Hrafn Búason og Kristján Andra Stefánsson frá utanríkisráðuneytinu.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi milli Íslands og Grænlands um stjórnun rækjuveiða á Dohrn-banka sem undirritaður var í Reykjavík 29. mars 2014.

Eins og fram kemur í athugasemdum við tillöguna var árlegur samstarfssamningur milli Íslands og Grænlands á sviði fiskveiða undirritaður í Reykjavík 29. mars 2014. Við það tilefni var undirritaður samningur þjóðanna um stjórnun rækjuveiða á Dohrnbanka en það er sameiginlegur stofn á svæðinu norður og vestur af Vestfjörðum.

Ekki náðist samkomulag um hlutfallslega skiptingu þessa stofns á milli þjóðanna en nýjasta vísindaráðgjöf, sem gefin er út af Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnuninni (NAFO), gerði ráð fyrir 2.000 tonna heildarafla á árinu 2014. Þar til að slíkt samkomulag kemst á fá þjóðirnar gagnkvæman aðgang að lögsögu hvor annarrar til veiða á takmörkuðu magni. Til að byrja með gerir samningurinn ráð fyrir því að Grænlendingar geti veitt 375 tonn af rækju Íslandsmegin við lögsögumörkin og Íslendingar að sama skapi veitt 375 Grænlandsmegin. Veiðar Grænlandsmegin munu lúta grænlenskum reglum en veiðar í íslenskri lögsögu lúta íslenskum reglum.

Samningurinn er ótímabundinn og öðlast fyrst gildi 30 dögum eftir að báðir aðilar hafa staðfest hann en það hafa Grænlendingar þegar gert. Hægt er að segja upp samningnum með sex mánaða fyrirvara.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Undir álitið rita Birgir Ármannsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Vilhjálmur Bjarnason, Elín Hirst, Frosti Sigurjónsson, Katrín Jakobsdóttir, Óttarr Proppé og Össur Skarphéðinsson.