144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

samningur milli Grænlands og Íslands um stjórnun rækjuveiða á Dohrnbanka.

610. mál
[12:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þennan samning styð ég sannarlega af tæru hjarta. Þetta er alveg stórmerkilegur samningur. Hann er ótímabundinn og hann sýnir hvað samstarf okkar Grænlendinga og Íslendinga er í þægilega afslöppuðum og slökum brautum. Hér er um að ræða stofn sem ekki næst samkomulag um milli þjóðanna, en þær leyfa samt hvor annarri að veiða upp að töluvert háu hlutfalli af því sem veiðanlegt er samkvæmt NAFO innan lögsögu hins. Það mundi ég kalla sambýli vina, ég verð að segja það.

Þetta samkomulag staðfestir frekar þau auknu samskipti sem hafa orðið á milli Íslands og Grænlands á síðustu árum. Ég gat þess í einni af ræðum mínum fyrr í morgun að ég hefði ásamt fjölmörgum þingmönnum úr öllum flokkum lagt fram þingsályktunartillögu mjög snemma í haust um það hvernig ríkisstjórn Íslands ætti að haga samskiptum sínum við Grænland til þess að efla þau og dýpka. Svo skrýtið sem það er nú að þótt það hafi verið eitt af fyrstu málunum sem lagt var fram í haust hefur það ekki enn þá fengist á dagskrá.

Mér finnst þess vegna tilvalið að fara af þessu tilefni yfir þann part þeirrar þingsályktunartillögu sem varðaði einmitt fiskveiðar. Einn af þeim 15 punktum, raunar tveir, sem þar voru lagðir til um að íslensk stjórnvöld beittu sér fyrir til þess að dýpka þetta samstarf laut að sjávarútvegi. Það er nefnilega merkilegt að í þeirri sjálfstæðisbaráttu sem háð er af Grænlendingum skiptir ákaflega miklu máli með hvaða hætti þeim tekst að spila úr sínum auðlindakortum og hvernig þeim tekst að afla verðmæta úr auðlindum sínum.

Við Íslendingar höfum heyrt alls konar spekúlasjónir um mikil auðævi í jörðu, mikil auðævi undir hafsbotni í formi olíu, en mér hefur sjálfum alltaf þótt sem Grænlendingar hafi ekki litið nægilega djúpt á auðlindir sínar í hafi. Því segi ég þetta af því hér eru nú tveir miklir sjávarútvegsfrömuðir, hv. þm. Ásmundur Friðriksson og Páll Jóhann Pálsson sem örugglega munu taka til máls um þetta hér á eftir, að í þúsund metrum utar frá Alþingishúsinu er Íslenski sjávarklasinn sem undir forustu Þórs Sigfússonar hefur unnið alveg hreint ótrúleg afrek finnst mér við að rannsaka og kanna möguleika. Eitt af því sem Íslenski sjávarklasinn gerði var að skoða hvað afrakstur Grænlendinga af sjávarafurðum sínum mundi aukast mikið ef þeir fengju það nákvæmlega sama fyrir hvert kíló upp úr sjó og Íslendingar. Þá kemur í ljós að ef samstarf Íslands og Grænlendinga á sjávarútvegssviðinu mundi leiða til þess að þeir gætu tekið upp nákvæmlega sömu aðferðir og við við að hantera aflann, við að koma honum á markað og selja hann, þá mundi munurinn á því sem þeir eru að fá núna og því sem þeir mundu þá fá, nánast jafnast á við það sem kallað er, með leyfi forseta, „bloktilskud“ Dana inn í þeirra efnahag. Þetta er alveg stórmerkilegt.

Með öðrum orðum, það er tvennt sem Grænlendingar þurfa að gera til þess að geta staðið á eigin fótum, þeir þurfa í fyrsta lagi að skapa sér tekjur sem jafna þetta framlag Dana á hverju ári í ríkissjóð þeirra og í öðru lagi þurfa þeir tekjur til þess að þróa velferðarsamfélag. Þetta er þjóð sem er að eldast og þar eru margvísleg félagsleg vandamál. Þá kemur í ljós að sjávarútvegurinn eins og hann er í dag gæti í reynd leyst annað þessara vandamála. Þegar maður horfir svo til þeirrar staðreyndar að sjór er að hlýna út af góðurhúsaáhrifum og líklegt er að það verði miklu meiri fiskgengd við Grænland en áður, þá sér maður að möguleikar þeirra til þess að ná fram til sjálfstæðis og byggja efnahagslegan grundvöll þess liggja í sjávarútvegi. Við Vestur-Grænland hafa menn til dæmis verið að veiða 10 þús. tonn af þorski. Við þekkjum það, Íslendingar, að í hlýjum árum hafa þorskseiði, þegar stofninn hefur verið mjög stór á Íslandi, farið til Grænlands og komið stundum aftur til Íslands. Það eru Grænlandsgöngurnar miklu þegar þorskurinn verður bókstaflega svo útbreiddur við Grænland að hann finnur ekki fæðu þar og gengur þá aftur inn í lögsögu Íslands af nákvæmlega sömu ástæðum og makríllinn er að gera þar núna. Því er spáð að þessi 10 þús. tonn sem eru við suðurodda Grænlands vestan megin kunni að fara upp í 50 þús. tonn á 20 árum. Ég tel að þau munu verða miklu fleiri og þetta verði sennilega innan 20 ára kannski 75 þús. tonna kvóti. Þetta sem sagt gjörbreytir grænlenskum sjávarútvegi.

Þá skortir hins vegar eins og Íslendinga á sínum tíma tæknikunnáttu og kunnáttu m.a. til þess að stýra skipum. Við stærum okkur alltaf af því að við höfum verið fæddir sjómenn og eins og við höfum byggt þetta allt upp sjálf hjá okkur. Það var ekki svo eins og ég rakti í ræðu minni áðan. Við fluttum inn verkkunnáttu og skipstjórnarkunnáttu fyrir bátaflotann frá Færeyjum. Það sem vantar hjá Grænlendingum núna er akkúrat sama tækniþekkingin og við fluttum inn. Með samstarfi þá geta þeir fengið hana héðan frá Íslandi. Sömuleiðis þurfa þeir á því að halda, tel ég, að sú tæknigeta sem við höfum í sjávarútvegi verði innleidd með einhverjum hætti á Grænlandi. Fyrir mig sem áhorfanda utan frá sem hef samúð með sjálfstæðisbaráttu og skilning á henni, virðist mér sem besta leiðin fyrir þá til þess að feta þá braut sem þeir hafa sjálfir markað sé einmitt að þróa sjávarútveg í samstarfi við Íslendinga. Þar eigum við Íslendingar að gera allt sem við getum til þess að hjálpa þessari grannþjóð okkar.

Ég bið frú forseta afsökunar á því að hafa farið svolítið út fyrir efnið, en ég gat um ástæðurnar. Hér erum við að ræða um sjávarútvegssamning við Grænland og þá fannst mér tilvalið á þessum fallega morgni, fyrst forsetadæmið hafði aldrei séð tilefni til þess að setja þingsályktunartillögu mína um skylt efni á dagskrá, að taka þann afmarkaða þátt hennar sem laut að sjávarútvegi. Þar eru miklir möguleikar, bæði fyrir Íslendinga og fyrir Grænlendinga, sérstaklega fyrir Grænlendinga ef þeir ætla að halda áfram á sinni braut til sjálfstæðis. Mér finnst alveg makalaust að rekast á það í gögnum Íslenska sjávarklasans hvað kynni í raun að vera liprasti lykillinn sem Grænlendingar geta beitt til þess að ljúka upp dyrum sjálfstæðis í framtíðinni.