144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

samningur milli Grænlands og Íslands um stjórnun rækjuveiða á Dohrnbanka.

610. mál
[12:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég tel að hv. þingmaður þurfi ekkert að biðjast afsökunar á því þó að við tökum okkur smástund í að ræða þessa samninga á sviði sjávarútvegs við okkar góðu granna. Það vill svo til að þeir eru hér á dagskrá hver á fætur öðrum, fyrst árlegur samningur við Færeyjar og svo þessi litla afurð sem er sprottin upp úr batnandi samskiptum Íslands og Grænlands á þessu sviði, þ.e. samningur um gagnkvæm veiðiréttindi í rækju á Dohrnbanka, sem er vissulega óvenjulegur samningur, það er alveg hárrétt. Það er væntanlega fremur sjaldgæft að lönd sem ekki hafa náð saman um skiptingu á deilistofni fallist eftir sem áður á að veita hvort öðru tiltekinn aðgang að miðum hvors annars til þess að veiða úr þeim sama stofni. Þetta er reyndar búið að vera í umræðu milli landanna í sennileg tvö ár frekar en þrjú ár. Það var tæpt á þessu á árinu 2012 þegar samningurinn náðist um grálúðuna en þá náðu menn ekki alveg utan um að klára þetta mál, en það var gerð bókun í tengslum við þann samning sem undirritaður var í Narsarsuaq í septemberbyrjun 2012 um að menn mundu halda áfram og næsta markmið væri að ná utan um rækjuveiðarnar á Dohrnbanka, sem af ýmsum ástæðum getur verið haganlegt fyrir báða aðila, að hafa á þennan hátt, og ekki síst út af ís sem af og til gengur yfir miðin og getur þýtt að menn þurfa að hörfa undan. Grænlensk skip koma austur yfir línuna til Íslands og öfugt.

Það er því ánægjulegt og til marks um að þessi samskipti hafa verið að batna. Þar skiptir miklu hinn árlegi samstarfssamningur um almennt samstarf á sviði fiskveiða sem nú hefur verið undirritaður nokkur ár í röð og á grunni hans hafa síðan verið rýmkaðar verulega heimildir Grænlendinga til að nýta sér aðstöðu á Íslandi eða landa afla úr uppsjávarveiðum hér. Það er auðvitað svo sem „viðkvæmt mál“, því að þar er aftur um að ræða veiðar sem fara fram án samninga, gera það reyndar í a.m.k. sumum tilvikum af bæði Íslands og Grænlands hálfu. En við höfum talið að á grundvelli þessa tvíhliða samstarfssamnings væri okkur stætt á því og það teldist ekki óábyrgt að liðka fyrir slíku samstarfi.

Auðvitað erum við með því upp að vissu marki að auðvelda Færeyingum að afla sér veiðireynslu í þessum tegundum, sem síðan munu aftur mæta okkur við samningsborðið og gera kröfur um hlutdeild í samdeilistofni. En ég held að það standi okkur nærri á alveg sama hátt og við höfum talið það sjálfsagt mál að vera sæmilega stór í sniðum í samskiptum okkar við Færeyinga, þá eigi það ekki síður við um Grænland. Þar geta legið, og liggja nú þegar, gríðarlegir framtíðarhagsmunir.

Það er svo nú þegar að íslenskar útgerðir eru í samstarfi við grænlenskar útgerðir um veiðar. Nokkur af stærri sjávarútvegsfyrirtækjunum á Íslandi eru þegar í samstarfi eða meðeigendur að félögum eða dótturfélögum sem eru með veiðiheimildir Grænlandsmegin frá og nokkur skip úr íslenska flotanum hafa verið seld þarna yfir á undanförnum árum.

Gangi framtíðarspá hv. þingmanns, líffræðingsins Össurar Skarphéðinssonar, eftir um þorskinn þá verður náttúrlega eftir miklu að slægjast. Auðvitað hefur maður beðið þess lengi, eftir þetta hlýja árabil sem við höfum upplifað, að ástandið færi að teygja sig eitthvað í áttina að því sem það var á áratugaskeiði á 20. öldinni í kjölfar hlýnunarinnar upp úr 1920. Þá fór þorskstofninn að vaxa við Grænland og var þegar mest lét þannig að úr honum var veitt árlega svipað eða jafnvel meira magn og við Íslendingar höfum verið að veiða að undanförnu. Færeyingar voru mjög stórir í þeim veiðum og gerðu út frá Færeyingahöfn og eldri færeyskir sjómenn segja gjarnan sögur að hinu mikla logni sem þeir upplifðu á Grænlandsmiðum og voru ekki alveg vanir heiman frá sér.

Íslensk skip sóttu heilmikið á Grænlandsmiðin. Það er gömul saga og ný að arðbærar veiðar verða ekki stundaðar auðveldlega, nema á gríðarlega öflugum skipum við Austur-Grænland, öðruvísi en hafa aðstöðu á Íslandi. Þannig að margt kann að vera í því fólgið að leggja orku í að bæta upp samskiptin við okkar ágætu granna í vestri.

Það höfum við gert og ber að nefna og fagna í þeim efnum opnum íslenskrar sendistofu í Nuuk, sem ég tel að hafi verið mikið framfaraskref í þessum samskiptum og að þeir sem að því stóðu eigi heiður skilinn. Hún er þó þar og til marks um aukna áherslu sem við Íslendingar leggjum á þau mál.

Það er svo kannski aðeins lengra út fyrir efnið, frú forseti, að velta fyrir sér möguleikum Grænlendinga, vina okkar, á því að treysta betur efnahagslegan grundvöll undir sjálfstæði sínu og komast í þá stöðu að verða ekki öðrum háðir, þá fyrst og fremst Dönum á þann hátt sem þeir eru í dag. Það vantar verulega upp á þegar næstum því helmingur grænlensku fjárlaganna kemur árlega í formi einnar ávísunar frá Kaupmannahöfn. Því miður hefur þróunin allra síðustu árin ekki verið jafn jákvæð og hún var um tíma þegar Grænlendingar voru markvisst að vinna þetta framlag niður, taka við auknum verkefnum og fjármagna þau sjálfir. Nú hefur orðið stöðnun í þeirri þróun í nokkur ár vegna erfiðari aðstæðna og sömuleiðis hafa tekjur af námugreftri eða olíuvinnslu og öðru slíku látið á sér standa, eins og kunnugt er.

Aftur að fiskinum. Auðvitað væri gríðarlega jákvætt að sjá það gerast á næstu árum að Færeyingum tækist að gera sér meiri verðmæti úr sjávarfangi sínu, sækja fram í þeim efnum. Þeir eru mjög stórir, sérstaklega þegar kemur að rækju og grálúðu, en sókn þeirra inn í uppsjávarveiðarnar er mjög marktæk og kemur til með að skipta grænlenskt efnahagslíf mjög miklu máli ef þeir fara að veiða hér tugi þúsunda tonna af norsk-íslenskri síld og kannski hátt í 100 þúsund tonn af makríl, þá munar nú um minna, eins og við Íslendingar þekkjum úr bókhaldi okkar. Ef svo þorskurinn skyldi bætast við í stórauknum mæli á komandi árum færi þetta að líta býsna blómlega út. Það er að sjálfsögðu líka mikið í alls konar samstarf að sækja annað en það sem snýr að beinum veiðiheimildum. Þar má nefna tækjabúnað og þjónustu frá Íslandi.

Við erum þrátt fyrir allt sterk og vel aflögufær í þeim efnum og höfum í vaxandi mæli verið að gerast alþjóðlegur leikari á því sviði að selja tæknibúnað og jafnvel heilu verksmiðjurnar. Þær stærstu og flottustu í heiminum hafa verið reistar af Íslendingum í tvígang til dæmis í Færeyjum, og hver veit nema Grænlendingar fari að hugsa sér til hreyfings í þeim efnum að geta landað uppsjávarveiðum sínum og unnið í verksmiðjum á landi. Væntanlega yrðu þær að vera einhvers staðar nálægt suðurodda Grænlands, en augljóst mál er að það mundi styrkja stöðu þeirra í slagsmálum um veiðiréttindin og auka möguleika þeirra á því að gera stóraukin verðmæti úr veiðunum og vera ekki jafn háðir öðrum og þeir eru í dag um að geta nýtt þessa stofna.

Það eru spennandi tímar fram undan og ýmislegt sem má ræða í því sambandi, en ástæða er til að lýsa ánægju með þennan samning sem tvímælalaust er skref í rétta átt.