144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[12:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni utanríkismálanefndar fyrir framsöguna fyrir áliti nefndarinnar í þessu máli. Ég veit nú svo sem ekki hvort mér geðjist að orðanotkuninni „munaðarlaus“ um dauða hluti eins og höfundarverk. Það getur auðvitað verið mikilvægt að geta nýtt höfundarverk og fjölmörg dæmi um það að menn séu óstaðsettir í hús sem eiga höfundarétt að verkum.

Ég vildi fyrst og fremst spyrja hv. þingmann hvort farið hafi verið yfir tengsl málsins við þau frumvörp sem hafa komið fram af hálfu menntamálaráðherra, nú þrjú undir þinglokin væntanlega löngu eftir að þetta mál var komið í meðferð nefndar, og hvort þau tengist með einhverjum hætti eða hafi áhrif hvert á annað, þessi gerð og síðan þau þrjú frumvörp sem menntamálaráðherra lagði hér fram fyrir örfáum vikum og ég veit að eru enn óafgreidd í þeirri nefnd sem er með þau til meðhöndlunar. Ég vildi bara fullvissa mig um að hægri höndin viti hvað sú vinstri er að gjöra.