144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[12:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargóð svör. Ég vil þó í síðara andsvari mínu víkja nokkuð að efnisinnihaldi málsins og inna hv. þingmann eftir öðrum annmörkum sem kynnu að vera á innleiðingunni. Þá er ég kannski þar sérstaklega að líta til þess hvort ákvæði stjórnarskrárinnar íslensku um friðhelgi einkaeignarréttarins, sem eru jú fortakslausari en almennt er um einkaeignarréttarákvæði í stjórnskipunarrétti, hvort þau geti hér komið til álita ef verið er að takmarka með einhverjum hætti réttindi eigenda höfundarverkanna eða í raun og veru víkja frá því að samþykki þurfi frá eigendum höfundaréttarins fyrir því að nota höfundarverkin, hvort hann telji að menn þurfi að skoða eitthvað sérstaklega einkaeignarréttarsjónarmið í íslenskum rétti við meðferð lagafrumvarpsins.