144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 88/2014 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

516. mál
[15:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur aðalforseti, þá væntanlega. Mig langar aftur að koma hér inn á það sem hv. þingmaður nefndi varðandi Evrópusambandið. Auðvitað er Evrópusambandið táknmynd og er í raun bara skrifræðisbákn, algert. Á þessum 20 árum EES-samningsins er búið að samþykkja rúmlega 117.000 gerðir innan Evrópusambandsins og af þeim hafa um það bil 8.500 verið innleiddar á Íslandi. Þannig að það hefði munað fyrir okkur ef við værum þarna inni og hefðum þurft að innleiða þetta allt saman og berjast við það. Ef ég man rétt þá er rúmlega helmingur, líklega í kringum 70%, allra fyrirtækja innan Evrópusambandsins, mjög óánægð með það regluverk sem þeim er búið þar. Það hefur gengið svo langt að það er sérstakur kommisar innan Evrópusambandsins sem á að reyna að vinda ofan af þessu rugli öllu saman sem búið er að samþykkja. Þannig að ég þakka bara guði fyrir að þetta ferli er komið á leiðarenda.