144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[15:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi reglugerð og tilheyrandi frumvarp sem nú er til meðferðar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd vekur upp ákveðnar áhugaverðar spurningar í tengslum við höfundalög almennt og hvernig við hugsum um höfundarétt. Sú staðreynd ein og sér að munaðarlaus verk hafi einhvers konar víðtækt menningarlegt hlutverk sem beri að vernda sérstaklega til að vernda menninguna þykir mér undirstrika það að hugverk og sérstaklega listaverk eru ekki eins og veraldlegir hlutir og við eigum ekki að hugsa um þá svoleiðis. Ég velti fyrir mér þótt ég sé ekki á móti grunnhugsuninni hér frekar en hv. þingmaður, þ.e. að heimilt sé að gera stafræn afrit af verkum til þess að varðveita þau, mér finnst mjög mikilvægt að við gerum það, þá skilur þetta eftir nokkrar áhugaverðar og mikilvægar spurningar. Ein af þeim spurningum er sú: hvað með þá aðila sem eru ekki sérstakar menningarstofnanir, bókasöfn o.s.frv.?

Nú mundi ég leggja til að Mikki mús til dæmis væri sameign allra, hann er hluti af okkar menningu. Við ólumst öll upp með Mikka mús. Við vitum öll hver hann er og hann á sér einhvers konar rótgróna þýðingu í menningunni, bæði hérlendis og víðar. Þetta þykir mér undirstrika það, þegar við lítum á menningararfinn annars vegar og höfundalög hins vegar, og ég velti fyrir mér hvort ekki þurfi að vera einhvers konar samræmi milli þess hvað almenningsbókasöfn og menntastofnanir mega gera annars vegar og hins vegar öðruvísi stofnanir megi gera, jafnvel einstaklingar. Ég velti fyrir mér sýn hv. þingmanns á þessu.

Nú býð ég ekki fram neina sérstaka lausn í þessum efnum og tel ekki í fljótu bragði að frumvarpið ætti að gilda um alla hina, en mér finnst mikilvægt að við ræðum þessa spurningu. Ég velti fyrir mér sýn hv. þingmanns á því.