144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[15:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég festist eiginlega þar sem hv. þingmaður sagði Mikki mús, hann telst vitanlega ekki munaðarlaust höfundarverk en hefur auðvitað orðið að miklu fyrirbæri, svona kapítalísku fyrirbæri í menningarheiminum þar sem væntanlega eru einkaleyfi á notkun Mikka músar. Fyrir sum okkar er Mikki mús enn þá bara eitthvað danskt fyrirbæri af því að við lásum fyrst um hann á dönsku, en það er auðvitað ekki raunin, ég festist aðeins í þessu.

Þegar við ræðum höfundarverk þá eigum við ekki að gera mun á höfundarverkum sem tilheyra hámenningu í sígildri skilgreiningu eða lágmenningu í sígildri skilgreiningu á því. Það eru auðvitað löngu úreltar skilgreiningar. Hér erum við að tala um allt menningarefni. Það sem þessi tilskipun tekur á fyrst og fremst er að það sé nýtt í almannaþágu, það er skilgreint í raun og veru hvar megi gera þetta, og það er hin spurningin sem hv. þingmaður varpar upp. Hér er talað um almenningsbókasöfn, menntastofnanir, söfn, skjalasöfn, varðveislustofnanir, mynd- og hljóðefni og útvarpsstofnanir í almannaþágu, þ.e. að efnið sé með þeim hætti nýtt í almannaþágu og þá eigi annað við en ef einstaklingar eða fyrirtæki væntanlega kjósa að nýta þetta efni með öðrum hætti.

Nú veit ég að þetta er eitthvað sem ég og hv. þingmaður erum örugglega alls ekki alveg sammála um, þ.e. meðferð hugverkaréttar og höfundaréttar í ljósi þess að þetta er mikilvægt mál í flokki hv. þingmanns. En þarna tel ég hins vegar vera mjög rík rök fyrir því, af því að þessum stofnunum er öllum ætlað að starfa í þágu almennings, að þær fái talsvert víðar heimildir til að geta miðlað þessu efni til alls almennings, helst án endurgjalds mundi ég vilja sjá eða alla vega með mjög hóflegu endurgjaldi, þannig að við tryggjum aðgengi almennings að menningunni óháð því hvort hún er munaðarlaus eða í höfundarétti, hvort hún er Mikki mús eða eitthvað annað, svo ég segi það nú.

Mér finnst það kannski öðru máli gilda þegar við horfum (Forseti hringir.) upp á aðila sem væntanlega dreifa slíku efni í gróðaskyni. Slíkur greinarmunur er gerður í þessari tilskipun.