144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[15:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér fer að líða eins og lögfræðingi höfundaréttarsamtakanna við að reyna að fara yfir þetta, ég tek fram að það er ég ekki. Eins og ég skil tilskipunina er það svo að hafi þekktir rétthafar heimilað birtingu á verki á þann hátt sem hér er rætt um og síðan er einn óþekktur rétthafi, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi, þá ætti tilskipunin að tryggja að hægt sé að afrita verkið og miðla því. Til þess er leikurinn gerður, til að tryggja aðgengi almennings að menningararfinum. Hins vegar er líka getið um það hér að í fyrsta lagi sé nauðsynlegt að fram fari svokölluð ítarleg leit, sem er skilgreind mjög nákvæmlega í tilskipunartextanum, hvernig nákvæmlega eigi að fara fram leit að hinum óþekkta rétthafa. Hér kemur líka fram að rétthafar skuli eiga rétt á að afturkalla það að verk þeirra teljist munaðarlaus með því að koma fram og krefjast réttinda sinna á verkinu eða öðru vernduðu efni. Rétthafar sem skyndilega spretta fram og segjast vera hinn óþekkti rétthafi eða höfundur eiga þann möguleika samkvæmt tilskipuninni. Þetta gæti verið ágætisskáldsagnaefni, ímynda ég mér, hið munaðarlausa höfundarverk sem skyndilega eignaðist höfund, ef einhvern vantar góða hugmynd að sögu.

Svarið við spurningu hv. þingmanns er í stuttu máli: Þetta er gert til að miðla þessum verkum til almennings. Það eru almannahagsmunirnir sem eiga að liggja hér á bak við. Í öðru lagi er það svo að sé einn óþekktur rétthafi en aðrir hafa veitt leyfi sitt á það ekki að hindra það að verkið verði sett í almenna birtingu í þágu almannahagsmuna.