144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[16:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur með tvær spurningar. Ég ætla að svara þeirri seinni fyrst. Hv. þingmaður setur það fram eins og það sé mín hugmynd að eignarréttur í tilviki höfundaréttar eigi að hverfa með tímanum. Það er ekki mín hugmynd, það er hugmynd allra sem hafa staðið að því að koma á höfundarétti. Það hefur verið þannig frá Bernarsáttmálanum, það er þannig í núgildandi lögum og frumvarpið sem ég nefndi áðan, mál nr. 71, snýst um að lengja höfundarétt úr 50 árum í 70 ár eftir andlát höfundar, þannig að tímatakmörkunin er ekki mín hugarsmíð.

Hún undirstrikar hins vegar að það þykir eðlilegt og hefur þótt eðlilegt í gjörvallri sögu höfundaréttar að takmarka í tíma þennan tiltekna einkaeignarrétt, ég vísa til sögunnar í þeim efnum. Auðvitað á hann að hverfa af sömu ástæðu og þeirri að til dæmis að Brennu-Njálssaga á fyrr eða síðar að vera aðgengileg öllum og hægt að dreifa henni, vænti ég. Ég vil spyrja hv. þingmann á móti, til þess að hann geti útskýrt fyrir mér hvernig hann sér þetta öðruvísi: Hverjum ætti að borga fyrir að dreifa Brennu-Njálssögu eða Gísla sögu Súrssonar?

Hvað varðar muninn á eignarrétti yfir hugverkum og eignarrétti yfir veraldlegum hlutum þá er eðlismunur á upplýsingum og veraldlegum hlutum. Munurinn er til dæmis sá að hér er ég með eitt blað, gefum okkur að það sé verðmæti. Núna er það hérna megin og ekki hinum megin. Ef ég tek það og set það hingað er það hérna megin og ekki hinum megin. Ef ég gæti búið til eina 18 tommu pitsu með pepperóní og lauk og gefið öllum heiminum að borða þá mundi ég gera það, ef það kostaði mig ekkert aukalega, og þá þyrftu þeir ekkert að vera að stressa sig yfir því að taka af mér pitsusneið því að það væri nóg til af henni, af sömu ástæðu og við borgum ekki fyrir súrefnið — enn þá — vegna þess að það er nóg til af því handa öllum, það er enginn skortur.

Undirstaða hagfræðinnar er skortur. Það lærði ég í hagfræði 101, sællar minningar. Þess vegna erum við með peninga, þess vegna erum við með verðmætamat, (Forseti hringir.) það er vegna þess að það er skortur. Það er lykilmunur á veraldlegum hlutum annars vegar og upplýsingum hins vegar, vegna þess að upplýsingar er hægt að afrita með svo gott sem engum kostnaði. Ég legg til að það sé grundvallarmunur.