144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[16:15]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég hefði kosið að þetta mál hefði verið tekið samhliða sambærilegu máli í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég verð aðeins að kvarta yfir verklagi hérna, mér finnst mjög skringilegt að verið sé að taka svona EES-mál sem eru í beinu samhengi við mál sem er verið að fjalla um í öðrum nefndum, og þá leita álits frá viðkomandi nefnd eða þá bara yfirfæra ábyrgð á málinu í þá nefnd sem hefur fagaðkomu að slíku máli. Ég mæli með að þetta tiltekna mál — ef ég má biðja þingmenn um að gjöra svo vel og loka hurðinni hérna í hliðarsal, ég hef ekkert rosalega gaman af skvaldrinu, það truflar mig. Ég mundi vilja að við mundum fresta þessu máli og taka það samhliða því máli sem er í allsherjar- og menntamálanefnd um höfundamál er lúta að munaðarlausum verkum.

Ástæðan fyrir því er að komið hefur fyrir að við höfum frestað gildistökumálum sem eru kannski umdeild í Evrópu eða eru í sérstakri meðferð hér á Alþingi. Sællar minningar tókst okkur í utanríkismálanefnd að fresta því að gagnageymd yrði lögfest hér í gegnum EES-samninginn, það var vel, af því að síðan hafa fallið fjöldamargir dómar í mismunandi þjóðlöndum í Evrópu og hjá Evrópudómstólnum sem með afgerandi skýrum hætti hafa lýst því yfir og komist að þeirri niðurstöðu að gagnageymd sé ólögmæt eins og hún hefur verið framkvæmd og hefði verið framkvæmd samkvæmt EES-tilskipuninni. Ástæðan fyrir því að ég nefni það í þessu samhengi er að mikil hætta er á að við festum okkur inni í einhverjum ramma áður en við klárum að fjalla um lögin sem eru í meðferð í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég hef nefnilega verið að fylgjast sérstaklega með málefnum er lúta að grunnstefnu Pírata, en ég er alveg viss um að það eru fleiri svona mál sem lenda inni í þessu, að það skarist einhvern veginn á milli nefnda og kannski höfum við ekki tryggt að þær undanþágur eða þau álitamál sem okkur finnst þurfa að vekja athygli á og jafnvel reyna að tryggja okkar sérstöðu, séu tekin til greina.

Yfir í frumvarpið sjálft. [Þingmaður syngur.] „Happy birthday to you, happy birthday to you“. — Núna var ég að fremja höfundaréttarbrot, vissuð þið það? Þetta lag er bundið höfundarétti til 2030 samkvæmt tilraunum Warner Music, og það er bundið höfundarétti í Evrópu til 2016. Það er alveg ótrúlegt með svona lag sem enginn tengir við að sé bundið höfundarétti. Ég gæti sem sagt tæknilega séð, af því að þetta er opinber vettvangur, verið sektuð eða þurft að greiða 700 dollara fyrir að hafa farið með þessar tvær línur úr frægasta lagi heimsins af því ég gerði það á ensku. En ég veit ekki alveg hvernig það er ef það er flutt á íslensku út frá Evrópurétti um höfundarétt.

Ég tek þetta tiltekna lag sérstaklega fyrir af því að allir gera ráð fyrir að öllum sé leyfilegt að nota það, þetta er einhvern veginn eitthvað sem fólk gerir ráð fyrir að sé nánast í almannahag að fá að nota, skringilegt að rukka þurfi börn um 700 dollara fyrir að syngja þetta lag eða ef það kemur óvart í einhverri frétt eða eitthvað svoleiðis. En þetta er frumskógurinn sem við búum við í dag, að mjög stór höfundaréttarfyriræki hafa eiginlega hagnast gríðarlega mikið á því að kafa og leita að leiðum til að kaupa oft vafasaman höfundarétt, eins og er í þessu tilfelli, hægt er að kynna sér þetta mál á Wikipedia. En mér finnst þetta vera svona eitt hið skrýtnasta og ég trúði því ekki fyrr en ég heyrði þetta fyrst og kannaði það. Það kom mér verulega á óvart að höfundarétturinn gæti orðið svona gríðarlega kapítalískur. Ég veit til þess að afmæliskökur í einhverju bakaríi í Bandaríkjunum voru teknar og eyðilagðar af því að eitthvað var óviðeigandi þar á afmæliskökum fyrir börn út frá höfundarétti, sem er svolítið sérstakt.

Víkjum að þessu máli. Þetta er mjög athyglisvert mál í sjálfu sér vegna þess að hægt hefði verið að leysa það ef við viljum tryggja að höfundaréttur munaðarlausra verka sé ekki misnotaður af svona stórum aðilum. Ef maður fer til dæmis í Camden í London er þar rosalega mikið úrval af bolum sem eru seldir með Banksy-myndum, sem er einn af þekktustu aðilum sem kýs að láta verkin sín vera munaðarlaus. Sennilega fær Banksy aldrei krónu af því, en fólk hagnast á að selja hugverk hans.

Ein góð leið til þess að tryggja að fólk hagnist ekki á hugverkum annarra er hreinlega að taka öll þessi munaðarlausu verk og setja þau undir hið svokallaða CC, eða CL, copyleft. Hægt er líka að kynna sér þetta með því að fara inn á Wikipedia. CC-ið gengur út á það, segjum til dæmis að þú viljir dreifa ljósmynd sem þú hefur tekið eða ljóðum, ég geri þetta með ljóðin mín til dæmis, að allir mega deila ljóðunum mínum sem vilja svo framarlega sem þeir hafa ekki hagnað af því og að þeir geti þess hver samdi ljóðið. Ég hef gert þetta síðan ég byrjaði að birta ljóðin mín á internetinu 1995. Þó eru þau ekki munaðarlaus enn sem komið er. En ef við mundum tryggja að allir sem vildu, sem sagt þá líka einstaklingar, og það er það sem böggar mig svolítið í frumvarpinu að hugmyndin á bak við þessa lausn á munaðarlausum verkum er að verið er að búa til gríðarlega mikið bákn í kringum þetta, ofboðslega flókið kerfi sem er jafnvel dýrt að nota, sem þýðir að það fer þá að kosta að fá aðgengi að þessum gögnum fyrir skóla, námsmenn, fræðimenn eða rannsakendur. Ég held að við þurfum að læra af reynslunni, að gríðarlega mikil og flókin bákn til að fá aðgengi að upplýsingum eða menningu er ekki framtíðin. Því finnst mér frumvarpið og hugmyndir á bak við það, bæði í þessu EES-máli og í því sem liggur fyrir allsherjar- og menntamálanefnd, vera svolítið gamaldags og ekki í takt við tímann sem við búum við.

Ein leið til að græða á bæði munaðarlausum verkum og öðrum verkum sem eru komin úr höfundarétti, menn fengu nú margir hverjir snilldarhugmynd, þar á meðal Google. Google var á tímabili að afrita bækur sem voru komnar úr höfundarétti og hafði tekist að fá í gegn eða nýtti sér einhverja löggjöf þannig að þeir þar fengu höfundarétt á afritinu. En aðrir sem vildu afrita það, eins og t.d. Internet Archives sem er „not for profit“-félag sem hefur sérhæft sig í að afrita menningu alls staðar að úr heiminum og gera hana aðgengilega öllum á internetinu, það stóð allt í einu frammi fyrir því að það mátti ekki afrita verk sem voru munaðarlaus og sér í lagi verk sem voru ekki lengur í höfundarétti. Þetta er birtingarmynd ákveðinnar firringar finnst mér og þarna er búið að afbaka höfundaréttinn á einhvern hátt sem mér hugnast ekki. Þess vegna vona ég að horft verði til þess þegar farið verður yfir þessi lagafrumvörp að tryggja til dæmis — þessi lagabreyting er í sjálfu sér ekki slæm, en hún gæti bara verið miklu betri, sem er allt of algengt með lög sem eru samin bæði hjá EES og hjá okkur, hún gæti verið miklu betri að því leytinu til að við gætum losað okkur undan bákninu sem er verið að búa til með þessu. Ég vona að þess verði sérstaklega getið í greinargerð með málinu að tryggja beri að ekki sé settur höfundaréttur á afrit af munaðarlausum verkum.

Fyrst við erum komin á þann stað að tala um menningarleg verðmæti er til dæmis eitt sem við höfum algjörlega klúðrað hérlendis, og því miður ekki bara hér heldur víða um heim, það er að ekki hefur farið fram nein markviss geymd, nema kannski undanfarin, ég veit ekki fimm, sjö ár, á menningarlegum verðmætum sem eru á ýmsum vefsíðum sem hafa verið gerðar og eru greindar sem menningarlegar en jafnframt líka þjóðmenningarlegar. Það er því ýmislegt í þessu sem kallar á miklu dýpri umræður í nefndinni. Því miður hefur það verið erfitt fyrir pírata að geta mætt á nefndarfundi í utanríkismálanefnd þar sem farið er yfir þessi mál af því að við erum svo fá. Sú sem hér stendur er alltaf á fundum í annarri nefnd á sama tíma, en ég vonast til að hv. formaður nefndarinnar taki tillit til þess sem ég hef komið hér á framfæri í dag. Ég ítreka að ég legg til að það verði skoðað, ef einhver hefur ekki nú þegar verið fenginn til þess að skoða það, þegar þetta er tekið fyrir í allsherjar- og menntamálanefnd hvort það stangist á við þessi lög að setja hreinlega CC á þetta í staðinn fyrir að búa til viðamikla og flókna margþætta gagnagrunna og ferla. Ég hefði gjarnan viljað að þetta mál hefði ekki verið á dagskrá fyrr en búið er að ganga frá og greiða atkvæði um frumvarpið sem liggur í allsherjar- og menntamálanefnd um það sama.

Síðan vil ég á endanum taka undir og hvet aðra þingmenn sem hafa málið til umfjöllunar að hlusta á gríðarlega góðar ræður sem voru fluttar af hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni og hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur. Þó að þau tali um ólíka þætti eru punktar þar sem komu fram í ræðum þeirra sem vert er að hafa til hliðsjónar þegar málið er afgreitt hér á þingi. Ég óska eftir því, forseti, að það verði skoðað hvort hægt sé að taka málið af dagskrá og það fari ekki í atkvæðagreiðslu fyrr en búið er að ganga frá málinu í allsherjar- og menntamálanefnd.