144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[16:29]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ljósi síðustu ummæla hv. þm. Birgittu Jónsdóttur er kannski rétt að rifja upp að þetta mál hefur komið nokkrum sinnum til þingsins á fyrri stigum, þ.e. mál kom hér fyrst, hygg ég, á árinu 2013 inn í svokallað 2. gr. ferli, þar sem mál sem eru í undirbúningi á vettvangi ESB, og er í undirbúningi að taka upp í EES-samninginn, eru kynnt fyrir þinginu. Þá var fjallað um það í utanríkismálanefnd og málið sent til allsherjar- og menntamálanefndar sem gerði ekki athugasemdir við það á því stigi. Síðan kom þetta aftur inn í utanríkismálanefnd þegar að því var komið að taka það upp í EES-samninginn þegar komið er að svokölluðu 3. gr. ferli. Þá fór fram ákveðin kynning á vettvangi utanríkismálanefndar og málið var afgreitt þar, reyndar aðallega á grundvelli þeirrar umfjöllunar sem þá hafði átt sér stað á fyrri stigum. Svo gerist það að það koma í raun tvö mál inn í þingið. Annars vegar er það þessi þingsályktunartillaga sem felur í sér afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara vegna innleiðingar þessa máls og það er það sem við erum að fjalla um í dag og í kjölfarið kom menntamálaráðherra með frumvarpið sem nú er til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd.

Þetta mál hefur verið í umfjöllun á ýmsum stigum. Ég nefni þetta bara vegna þess að ég tel að ekki sé ástæða til að bíða með atkvæðagreiðslu um þetta mál þangað til afgreiðslu hins málsins er lokið, þ.e. innleiðingarfrumvarpsins. Þessi þingsályktunartillaga felur ekki í sér endanlegar lyktir málsins, heldur eingöngu það að verið er að heimila að gera þá lagabreytingu sem frumvarp hæstv. menntamálaráðherra felur í sér.