144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[16:31]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er fínt að fá í þingtíðindin nákvæmt verkferli í málinu. Ég er ekki að kvarta yfir meðferð málsins hjá utanríkismálanefnd, alls ekki, en eins og kom fram í upphafi ræðu minnar var ég að benda á að það mætti laga verklagið á þessum EES-málum þannig að nefndin, sem síðan fær frumvarp sem kallast í raun á við EES-reglugerðina, haldi alfarið um málið frá A til Ö. Það er það sem ég var að benda á í upphafi ræðu minnar. Ég vona og ég skynja að það sé ákveðinn vilji meðal þingmanna til að breyta aðeins verklaginu. Það gerist vonandi á haustdögum að þetta verði endurskoðað.

Það eina sem ég óttast — það gerist stundum þegar verk er í vinnslu að fólk öðlast aðeins dýpri og betri þekkingu á málefnum. Mér hefur fundist, í umræðum sem hafa skapast út af þessu máli, sem er í allsherjarnefnd, að skilningur minn hafi dýpkað töluvert og ýmsar ábendingar, sem maður hefði viljað koma á framfæri á fyrri stigum, hafa sprottið fram.

Mig langaði þar af leiðandi að benda á — það er sennilega of seint að koma með eitthvað í greinargerð um þetta tiltekna mál, en þá alla vega beina því til allsherjar- og menntamálanefndar að þegar hitt málið fer í lokaafgreiðslu þar að tryggja að í því frumvarpi standi einhvers staðar að ekki sé heimilt að setja höfundarrétt á afrit af þeim verkum sem á núna að gera aðgengilegri, út af því að það þýðir að þau verða minna aðgengileg til framtíðar.