144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[16:37]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni ræðuna og ekki síður þakka henni fyrir sönginn þótt hann hafi verið brot á höfundaréttarlögum.

Það vakti athygli mína að hv. þingmaður gerði athugasemdir við það að þetta mál á dagskrá sé slitið úr samhengi við tvö önnur mál um höfundarétt fyrir þinginu. Ég kom eiginlega bara til þess að fá aðeins gleggri mynd af þessu. Eru þau mál bæði í allsherjar- og menntamálanefnd? Og mig langaði að vita hvaða svið þessi þrjú mál spanna, hvað verið er að fjalla um þar, einmitt til þess að við getum metið það hvort ekki sé eðlilegt að verða við þeirri bón þingmannsins að þetta sé afgreitt allt sameiginlega. Þegar málið er á dagskrá í þinginu er eðlilegt að við reynum sem þingmenn að fá sem heildstæðasta mynd. Við erum líka mörg hér í salnum sem erum ekki í þeim nefndum sem fjalla um ýmis mál, við erum náttúrlega best að okkur í þeim málum sem eru í okkar nefndum, þess vegna er það mikilvægt þegar maður er að fylgjast með umræðunni að hún sé sem heilsteyptust.

Mig langaði því að vita hvert innihald málanna er sem þingmaðurinn óskar eftir að séu samferða því máli sem hér er á dagskrá.