144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[16:41]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Ég þakka þingmanninum svarið. Hv. formaður utanríkismálanefndar fór ágætlega yfir ferlið í þessum EES-málum, hvernig þau koma inn í nefndirnar sem 2. gr. mál og koma svo í formi þingsályktana til að heimila lögleiðingu. Í þessu tilfelli eru málin svo að segja samhliða inni í þinginu. Oft gerist það þannig að þingsályktunin er löngu afgreidd þegar lagafrumvarpið kemur hingað inn. Í tilfelli heilbrigðisþjónustu yfir landamæri er ráðuneytið komið með lagafrumvarp um frekar flókið mál, nánast áður en þingsályktunartillaga er komin inn í þingið og það í mjög umdeildu máli sem þarf töluverða yfirlegu og hefur í sér óljós áhrif á aðgengi fólks eftir efnahag til heilbrigðisþjónustu og óljós áhrif á kostnað fyrir heilbrigðiskerfið. Þar sér maður bara að pólitíski áhuginn er það mikill að innleiðingin er ekkert vandamál. Þess vegna mótmæli ég ekkert þessari kröfu þingmannsins um að þetta sé samhliða hér á dagskrá, en það er með öllu móti hvernig samfellan er milli þingsályktunartillagna og frumvarpanna. Stundum koma þær löngu áður. Núna eru þær samtímis og stundum eru æsingurinn svo mikill að innleiða lögin, þó mjög sjaldan, að lagafrumvörpin eru nánast komin inn áður en þingsályktanir sem heimila þau koma. En ég bíð bara spennt eftir seinna svari um fleiri mál varðandi höfundaréttinn og þakka andsvarið hingað til.