144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um slysatryggingar almannatrygginga, frá velferðarnefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund fjölda gesta. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasambandi Íslands, Persónuvernd, Samtökum atvinnulífsins, Sjúkratryggingum Íslands, Tryggingastofnun ríkisins og Vinnueftirliti ríkisins.

Frumvarpið er liður í heildarendurskoðun laga um almannatryggingar, nr. 100/2007 og er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar. Því er ætlað að færa gildandi ákvæði laganna um slysatryggingar í sérlög án þess að gera efnisbreytingar á þeim til að gera löggjöfina aðgengilegri. Jafnframt er því ætlað að auðvelda efnislega endurskoðun hennar, en í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu kemur fram að endurskoða skuli lögin innan tveggja ára frá gildistöku þeirra.

Ég ætla hér að fara aðeins í slysahugtak frumvarpsins. Í 2. málslið 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins segir að með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama hins tryggða og gerist án vilja hans.

Skilgreiningin er efnislega samhljóða núgildandi skilgreiningu í 2. málslið 1. mgr. 27. gr. Skilgreiningin var gagnrýnd fyrir nefndinni. Gagnrýnin beindist einkum að áskilnaði um að atburður væri utanaðkomandi. Fram kom að af honum leiddi að á ári hverju væru ekki greiddar bætur vegna nokkurs fjölda óhappa sem leiddu af sér líkamstjón, svo sem vegna falls eða ofraunar. Hann yrði einnig til þess að óhöpp af þessu tagi væru oft ekki tilkynnt sem torveldaði öflun tölfræðilegra upplýsinga og forvarnir. Þá væri hann ekki í samræmi við alþjóðlegar skilgreiningar á slysum sem Alþjóðavinnumálastofnunin og Evrópusambandið notuðust við.

Nefndin telur rök hníga að því að endurskoða slysahugtak laganna. Nefndin telur þó rétt að það bíði þeirrar efnislegu endurskoðunar laga um slysatryggingar almannatrygginga sem fram undan er, enda mikilvægt að breytingar á skilgreiningu slysahugtaksins séu vel ígrundaðar og skýrðar og áhrif þeirra metin. Nefndin gerir því ekki tillögu um breytingu á 2. málslið 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins.

Um óbeinar efnislegar breytingar frumvarpsins er þetta að segja: Sjúkratryggingar Íslands bentu á að frumvarpið fæli með óbeinum hætti í sér efnisbreytingar því í það vantaði ákvæði sem nú eru í VI. kafla laga um almannatryggingar og varða bæði lífeyris- og slysatryggingar almannatrygginga. Auk þess væri ýmislegt óljóst um samspil bóta slysatrygginga og lífeyristrygginga almannatrygginga. Nefndin leggur til þrjár breytingar á frumvarpinu með hliðsjón af athugasemdunum.

Annars vegar er lagt til að á eftir 13. gr. frumvarpsins komi tvær nýjar greinar, 14. og 15. gr., um samspil og skörun bóta og um ákvörðun bóta. Fyrri greinin tekur einkum mið af núgildandi 2. og 3. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar. Síðari greinin byggist á núgildandi 2. mgr. 45. gr., 53. gr. og 2. mgr. 54. gr. laga um almannatryggingar, auk þess sem áréttað er að um greiðslur slysalífeyris aftur í tímann fari samkvæmt lögum um fyrningu kröfuréttinda til samræmis við núverandi túlkun 2. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar.

Hins vegar er lagt til að við 23. gr. frumvarpsins bætist ný málsgrein þess efnis að ákvæði laga um almannatryggingar gildi eftir því sem við á um atriði sem þar eru tilgreind. Í 2. og 3. mgr. greinarinnar eru þegar ákvæði sem vísa til ákvæða laga um sjúkratryggingar, laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð. Ákvæði af þessu tagi eru óheppileg því þau gera lögin óaðgengilegri. Nefndin telur þó að sinni ekki rétt að leggja til frekari breytingar þar sem vænta má þess að þau atriði sem ákvæðin taka til verði meðal þeirra atriða sem endurskoðuð verða til samræmis við ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu.

Aðrar breytingartillögur eru: Í 2. málslið 3. gr. frumvarpsins er fyrir mistök vísað til 11. og 12. gr. í stað 12. og 13. gr.

Nefndin leggur til að þetta verði leiðrétt. Nefndin leggur til að fjárhæðir í 11. og 13. gr. frumvarpsins verði uppfærðar með tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa á bótafjárhæðum frá framlagningu frumvarpsins til samræmis við 69. gr. laga um almannatryggingar, samanber reglugerð um fjárhæðir bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2015, nr. 1221/2014.

Bent var á að ákvæði 20. gr. frumvarpsins, um réttindi á milli landa, væri óskýrt að hluta. Nefndin leggur til breytingar á greininni með hliðsjón af athugasemdum Sjúkratrygginga Íslands.

Nefndin leggur til að lögin taki gildi 1. janúar 2016 til samræmis við tillögur nefndarinnar um gildistöku frumvarps til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og frumvarps til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála.

Gerðar voru tillögur í umsögnum og á fundum nefndarinnar um nokkrar aðrar efnisbreytingar, þar á meðal varðandi bótarétt vegna slysa við ferðir til og frá vinnu, afmörkun hugtaka og atvinnusjúkdóma. Nefndin telur rétt að afstaða verði tekin til þessara tillagna við efnislega endurskoðun laga um slysatryggingar almannatrygginga og gerir því ekki tillögu um breytingar á frumvarpinu með tilliti til þeirra.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir þetta nefndarálit skrifa hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir formaður, Brynjar Níelsson, Ásmundur Friðriksson, Elsa Lára Arnardóttir, Guðbjartur Hannesson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Páll Valur Björnsson og Steinunn Þóra Árnadóttir.