144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[17:30]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Helstu athugasemdir Vinnueftirlitsins lutu að skilgreiningum á vinnuslysum og ríkari skráningu atvinnusjúkdóma og lögðu þá til að skoða sérstaklega hvort ekki væri hægt að auka hvatann með því að gera það bótaskylt. Þegar kemur að dagpeningunum er það ekki einasta að þetta kunni að hafa skapað einhvern hvata sem ýtir fólki fremur en ella í örorku heldur skapar þetta líka hvata fyrir tryggingar á frjálsum markaði, að hverfa frá því að við séum með sameiginlegt opinbert tryggingakerfi sem er ansi skilvirkt og einfalt og hluti af tryggingagjaldinu. Það leiðir auðvitað til þess að fólk fer að leita annarra leiða til að tryggja sig og það er dýrara, óskilvirkara og flóknara þótt það skapi vissulega vinnu fyrir lögfræðistofur, eins og við sjáum á öllum þeim fjölmörgu auglýsingum sem birtast manni um slysa- og bótarétt sem fólk er hvatt til að kanna hvort það eigi. Nú finnst mér frábært ef fólk á þann rétt að það fái hann, það vil ég taka fram, en auðvitað ættum við að vera með kerfi sem er þannig að menn þurfi ekki að leita á náðir lögfræðinga með rannsókn á hverju einstaka tilviki til að kanna hver réttur þeirra er. Við eigum að hafa þetta inni í opinbera kerfinu. Það á að vera hluti af því öryggisneti sem launafólk og almenningur býr við.

En þetta hefur fengið að drabbast í gegnum árin, slysadagpeningarnir. Þess ber að geta að ég gat ekki einu sinni fengið upplýsingar um meðaltíma greiðslna, því að það kom fram að Sjúkratryggingar geta því miður ekki greint hverjir njóta bóta slysatrygginga með öðrum tekjum. Þannig eru nú upplýsingarnar um þau mál.