144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[17:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. velferðarnefnd fyrir yfirferð hennar yfir þetta mál, slysatryggingar almannatrygginga, sem lætur kannski ekki mikið yfir sér og snýr að mörgu leyti einkanlega að formi þessarar löggjafar og umbúnaði. Þar hefur í umfjöllun nefndarinnar verið fjallað um ýmsa þætti sem eru öllu veigameiri og er orðið löngu tímabært að þingið taki á og stjórnvöld yfir höfuð. Það er meðal annars samspilið á milli ólíkra þátta í þessu flókna kerfi og síðan í raun grundvallaratriði í almannatryggingakerfinu, þ.e. grunnframfærslan sjálf eða sú sjálfsagða krafa þess fólks sem þarf að reiða sig á bæði slysatryggingar og lífeyristryggingar almannatrygginga, að bætur þar nægi til framfærslu eins og hún er á hverjum tíma.

Sömuleiðis er það hitt höfuðviðfangsefnið nú um stundir varðandi almannatryggingar sem lýtur að því að koma í veg fyrir að fólk lokist inni í kerfinu eða kerfið sé hannað þannig að fólk festist þar inni í einhvers konar bótaflækju eða skipulagðri fátækt og eigi þaðan ekki afturkvæmt. Menn þekkja í sjálfu sér umræðuna um fjölgun öryrkja í því sambandi og þann þátt málsins bar náttúrlega aðeins á góma í andsvörum áðan við formann velferðarnefndar. Dagpeningarnir hafa verið hluti af þeirri umræðu, vegna þess að það er hægt að breyta forminu og umbúnaðinum um dagpeninga fram og til baka en það breytir því ekki að dagpeningarnir sjálfir eru smánarlega lágir og ekki aðeins smánarlega lágir heldur beinlínis óskynsamlega lágir. Sú fjárhæð sem fólki stendur þar til boða er með þeim hætti að ekki er hægt að framfleyta sér af henni nema vera þá með aðrar tekjur jafnframt eða stuðning úr öðrum kerfum. Sú lága fjárhæð getur stuðlað að því að fólk leiti ekki að þeirri skammtímaaðstoð sem kannski var þörf fyrir þegar það kom inn í kerfið í upphafi heldur leiti strax, í raun áður en hefur á það reynt hvort einungis sé um tímabundin vandkvæði að ræða, tímabundna sjúkdóma og slíkt, eftir því að fara inn á endurhæfingarlífeyri og örorku í framhaldinu.

Það er sparnaður sem kemur mönnum í koll ef þannig er búið um að ekki er unnt að fá sómasamlega skammtímaaðstoð í formi dagpeninga og fólki er beinlínis ýtt inn á fastar lífeyrisgreiðslur til lengri tíma, þaðan sem getur verið erfitt að vinna sig út. Hins vegar eru það ekki aðeins fjárhæðir í dagpeningunum sem eru efni sem við þurfum að taka til umfjöllunar í þinginu heldur er það bæði heildarsamspilið í hinu flókna bótakerfi okkar og síðan grunnfjárhæðirnar sjálfar og það sem fólki er ætlað til að lifa á og þá ekki síst, eins og ég tók upp undir liðnum um störf þingsins í morgun, í tengslum við þá kjarasamninga sem núna er verið að gera, vonum við. Þegar verið er að taka á því sem ég treysti að verði kjör lægst launaða fólksins á vinnumarkaði er auðvitað óhjákvæmilegt fyrir okkur í þinginu að taka á fjárhæðunum sem fólki er ætlað í almannatryggingakerfinu, hvort sem það eru slysatryggingar, ellilífeyrir eða örorkulífeyrir. Þar hlýtur að vera uppi sama krafan og krafan á vinnumarkaði og hún hlýtur líka að snúa að þeim sem þurfa að treysta tímabundið á dagpeninga, að þeim sé í þessari löggjöf tryggð lágmarksframfærsla eða fjárhæðir sem duga til lágmarksframfærslu. Ég held að það viti allir að þeir dagpeningar sem hér eru undir gera það hvergi nærri.

Menn hafa trúlega um 30–40 ára skeið reynt að fara inn í hið flókna kerfi almannatrygginga hjá okkur og samspil ólíkra bótaflokka og ólíkra greiðslna og sannast sagna held ég að menn hafi fyrir allnokkru síðan misst töluna á þeim fjölda nefnda sem skipaðar hafa verið til að ná því að endurskoða kerfið í heild sinni og samspilið á milli ólíkra þátta þess og hvernig menn færast úr einum þætti þess og yfir í aðra með engum árangri. Þetta er ólíkt öllum þeim fjölda nefnda sem skipaðar hafa verið til endurskoðunar á stjórnarskránni, flestar þeirra nefnda hafa aldrei fundað því að þær voru aðeins skipaðar að forminu til til að uppfylla formkröfur í þinginu og var aldrei ætlunin að fjalla um breytingar á stjórnarskrá á þeim tíma sem þeim málum var vísað þangað. Þær nefndir sem hér hafa verið starfandi í liðlega 30 ár hafa hver á fætur annarri fjallað mikið og ítarlega um allar flækjurnar í almannatryggingakerfinu og engu að síður hefur engri þeirra tekist að gera heildstæðar tillögur um endurskoðun kerfisins sem næðu fram að ganga og tækist að verða að lögum.

Það lá býsna nærri á síðasta kjörtímabili í nefnd sem þáverandi velferðarráðherra skipaði og var undir formennsku Árna Gunnarssonar. Hún skilaði tillögum undir lok þess kjörtímabils um endurskoðun á þeim þætti almannatrygginganna sem lýtur að öldruðum og ellilífeyrinum og tilraunum til að einfalda það kerfi og var í sjálfu sér með undir hugmyndir um frekari einföldun á öðrum þáttum og í raun öllum þáttum almannatrygginganna á endanum, eins og stefndi í þá. Því miður náðu þær tillögur ekki fram að ganga fyrir lok kjörtímabilsins, komust ekki gegnum þingið í tæka tíð til að gera að lögum. Síðan varð til nýr stjórnarmeirihluti og þá var enn skipuð nefnd um heildarendurskoðun á þessu flókna kerfi okkar sem tók til við sama viðfangsefni og nefndin undir forustu Árna Gunnarssonar hafði fengist við og önnur nefnd á undan henni og önnur nefnd á undan henni. Ég vil nota þetta tækifæri og brýna alla þá aðila sem að þeirri vinnu koma núna að láta einskis ófreistað í því að klára einu sinni tillögur um að ná fram einföldun á kerfinu og meiri skilvirkni. Það er orðið löngu tímabært og þúsundum manna til trafala hversu flókið og óskilvirkt kerfið er orðið eftir að hafa mallað áfram og tekið ýmsum lítils háttar breytingum eða viðaukum í gegnum tíðina án þess að heildarmyndin væri nokkurn tíma undir. Því miður er það þannig að kerfið er orðið svo stórt og flókið að það er varla nokkur maður sem kann á því full skil. Það hefur þó farið nokkrum sögum af því að það sé einn starfsmaður í Tryggingastofnun sem það geri en hann kannast þó ekki við að hafa fulla yfirsýn yfir alla þá anga sem orðnir eru til á kerfinu og það eitt út af fyrir sig gerir fólki erfitt að sækja rétt sinn, ef kerfið er orðið svo flókið að menn eru ekki í aðstöðu til að þekkja rétt sinn og ekki heldur til að afla sér fullnægjandi upplýsinga um það hver rétturinn er.

Það er mjög mikilvægt til að tryggja jafnræði borgaranna að við vindum bráðan bug að því að gera á þessu breytingar þannig að fólk geti með sæmilega bærilegum hætti kynnt sér þau réttindi sem það nýtur, að þau séu ekki svo flókin og óskilvirk að yfir höfuð sé erfitt að átta sig á þeim. Þá er það auðvitað ávísun á það að sumir fá og aðrir ekki og það er mismunun. Að þessari vinnu núna koma fulltrúar, m.a. frá hverjum þingflokki á Alþingi, sem starfa saman í nefnd sem hv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttir hefur skipað, ásamt með fulltrúum frá aðilum vinnumarkaðarins, ýmsum stéttarfélögum, Öryrkjabandalaginu, Landssambandi eldri borgara og fleiri aðilum. Þetta er stór og mikill hópur en ég tel að ástæða sé til að binda við það vonir að það takist að ná sæmilega heildstæðri endurskoðun á þessu kerfi. Ég held sannast sagna að full ástæða væri til að taka umræðu um dagpeningana sem hér eru undir í því samhengi og sjá hvort mætti í þeirri heildstæðu tillögugerð nálgast það vandamál sem þeir hafa verið og sú lága fjárhæð sem þar er.

Hér tengjast síðan ýmsir hlutir því að reyna að gera kerfið skilvirkara og draga úr skipulagðri fátækt sem í því er með þeim aragrúa af tekjutengingum af ýmsu tagi og frítekjumörkum og hvað þetta er sem menn hafa fundið upp í gegnum tíðina til að flækja kerfið, ekki að ástæðulausu heldur vegna þess að það hefur því miður verið skortur á fjármunum inn í kerfið og menn hafa þess vegna þurft að búa til alls kyns aukareglur til að beina fjármununum til þeirra sem á hverjum tíma hafa mest þurft á því að halda. Það er sannarlega löngu orðið tímabært til að vinda aðeins ofan af því og einfalda kerfið. Fyrst og fremst verður kerfið að tryggja fólki mannsæmandi afkomu. Ég fer með það eftir minni en ég hygg að gert hafi verið ráð fyrir 3,5% hækkun bóta í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár og það er á bótum sem að stofni til eru innan við 200 þús. kr., þannig að við getum þá verið að tala um 6 þús. kr. hækkun fyrir skatta, liðlega 3 þús. kr. hækkun á mánaðarlegum tekjum þeirra sem eiga í hlut eftir skatta. Nú þegar sú ákvörðun virðist vera í uppsiglingu á hinum almenna vinnumarkaði, og þá væntanlega fylgja eftir á hinum opinbera vinnumarkaði, að launahækkanir lægst launuðu hópanna verði verulega umfram þetta, sem er mikið fagnaðarefni og löngu tímabært að tekið sé á, þá er ákaflega mikilvægt að það endurtaki sig ekki sem gerðist hér á 10. áratug síðustu aldar að ellilífeyrisþegar, öryrkjar og þeir sem þurfa að treysta á sjúkradagpeninga Tryggingastofnunar og aðrar slíkar framfærsluleiðir, atvinnuleysistryggingarnar og aðra slíka hluti, verði ekki skildir eftir með strípaðar verðlagsbreytingarnar, nokkur þúsund kr. hækkun, þegar allir aðrir sem eru á lægstu laununum í landinu hækka um verulega miklu hærri fjárhæðir.

Það er alveg ljóst af þeirri ríkisfjármálaáætlun sem er til umfjöllunar í þinginu að það hefur á engan hátt verið gert ráð fyrir þessu í þeirri áætlun. Þar eru engir fjármunir, hvorki til að ráðast í hækkun á dagpeningunum í sjúkra- og slysatryggingunum né hækkun á örorkulífeyri, ellilífeyri, atvinnuleysisbótum og öðrum þeim þáttum í samræmi við þær launahækkanir sem við sjáum trúlega verða að veruleika almennt á vinnumarkaði. Ég held að brýnasta verkefni okkar í kjaramálum fólksins í landinu í framhaldi af þessum kjarasamningum verði að tryggja að þeir stóru hópar fólks sem þurfa að treysta á almannatryggingarnar, Tryggingastofnun ríkisins, á lífeyriskerfið þar, á atvinnuleysisbæturnar og aðra slíka hluti sér til framfærslu, fái sambærilegar kjarabætur við aðra hópa í landinu. Það breytir því auðvitað ekki að þótt okkur tækist það þarf sérstaklega að taka á dagpeningunum sem hér hafa verið nokkuð til umræðu, því að þeir eru fyrir í engu samhengi við lægstu laun eða bætur.

Ég tel að full ástæða sé til að huga vel að og tryggja að þær ágætu ábendingar Vinnueftirlitsins sem komu fram um nauðsynlegar efnisbreytingar til að gera á lögunum komi fram. Eitt er auðvitað að fá lýsingu á ýmsu því sem þarft væri að breyta í lögunum í umsögn frá Vinnueftirlitinu, sem ekki er tekið á í meðförum nefndarinnar vegna þess að hún er ekki að gera efnisbreytingar á lögunum. En það verður að ganga eftir því og þingið verður að sinna aðhaldshlutverki sínu í því að það komi fram þær heildstæðu tillögur um endurskoðun laganna sem boðaðar hafa verið og þar sé tekist á um þau verkefni sem Vinnueftirlitið bendir á, því að það eru þeir sem gerst til þekkja um það hvað gera þarf til að fækka slysum og draga úr atvinnutengdum sjúkdómum. Það er kjarni málsins í tengslum við slys og sjúkdóma við vinnu manna að draga úr því, því að þótt framfærslan skipti gríðarlega miklu máli og mannsæmandi líf eru peningar hjóm eitt hjá heilsu, lífi og limum. Eins og ég sagði í orðaskiptum mínum við hv. formann velferðarnefndar fyrr á fundinum er það sannfæring mín að við getum á þessu sviði, þrátt fyrir hið mikla og góða starf sem Vinnueftirlitið hefur unnið þar, og einkum ef við tökum mark á og fylgjum eftir ábendingum og ráðleggingum þeirra í Vinnueftirlitinu, náð enn þá betri árangri en við höfum verið að gera og raunar miklu betri árangri. Ég held að því séu í raun og veru lítil takmörk sett hversu mikið er hægt að draga úr slysum og sjúkdómum á hvaða sviði sem vera skal. Ég held að það hafi menn sýnt í verki víða og við höfum fordæmin víða til að læra af. Ég nefndi áðan að árið 2008 var fyrsta árið þar sem ekkert dauðaslys varð á sjó og það er árangurinn af marklausu og þrotlausu starfi manna að slysavörnum á sjó um langt árabil, m.a. með skólaskipinu Sæbjörgu og námskeiðum fyrir sjómenn og miklu betri útbúnaði og þar fram eftir götunum. Mönnum hefði þótt það býsna ótrúlegt fyrir ekki löngu síðan að það ár kæmi í Íslandssögunni að enginn færist á sjó. Hið sama er að sjálfsögðu hægt að gera á landi. Ég minni til að mynda á þær áhyggjur sem Paul O'Neill, fyrrverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, lagði í störfum sínum fyrir Alcoa, fyrir verksmiðjur þeirra í hátt í 100 löndum í heiminum í mjög skipulagðri og harðri baráttu gegn vinnuslysum í álverksmiðjum, sem voru alvarlegur skaðvaldur og spilltu heilsu manna í tugum landa í stórum stíl, og náðist ótrúlegur árangur í. Ég held að við eigum þess vegna að fylgja tillögum Vinnueftirlitsins um efnisbreytingar á lögunum.