144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[18:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni að vaxandi verkefni í nútímasamfélögum er hagvöxtur án atvinnusköpunar og margt sem bendir til þess að sjálfvirkni muni í vaxandi mæli ryðja brott ýmsum hefðbundnum störfum sem við þekkjum. Einnig eru lífslíkur fólks að aukast og allt mun þetta auka þrýsting á velferðarkerfið.

Það er rétt að nefnd undir forustu Péturs Blöndals hefur fjallað um þetta mál en í leyfi hans er það starf núna leitt af Þorsteini Sæmundssyni. Ég er býsna bjartsýnn á að út úr því geti komið góðir hlutir. Vandinn sem þar er við að eiga er sá að menn hafa ekki flækt kerfið af illum hug heldur vegna þess að þeir höfðu takmarkaða fjármuni til ráðstöfunar og reyndu þess vegna að setja einhverjar reglur til að beina þeim til þeirra hópa sem mest þurftu á að halda á hverjum tíma, t.d. þeirra sem hafa engar atvinnutekjur eða engar tekjur úr lífeyrissjóði. Með einhverjum slíkum hætti voru sérreglur settar til að beina fjármunum á rétta staði.

Til að einfalda slíkt kerfi þurfa fjármunir að vera meiri í hinu einfalda kerfi en þeir voru í því flókna. Það er óhjákvæmilegt ef ná á árangri í slíku kerfi. Ég held að um leið og þessi viðfangsefni fara vaxandi hjá iðnríkjunum þá sé það sem betur fer þannig að auðlegð þjóðanna vex og þar af leiðandi burðir þeirra til að takast á við þessar nýju áskoranir.