144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[18:28]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom þar inn á marga punkta sem mér fannst mjög áhugaverðir. Ég er ekki endilega viss um að ég sé alls staðar sammála hv. þingmanni en eigi að síður fannst mér þetta mikilvæg atriði sem eru vel þess virði að ræða og á lengri tíma en gefst í þessum andsvörum, en hér er alla vega hægt að byrja.

Ég held nefnilega að ég og hv. þingmaður séum sammála um að við viljum bæta kjör þeirra sem hafa þau lökust, þetta er aðeins spurning um útfærsluna. Þess vegna langar mig að spyrja þingmanninn út í skilyrðislausu grunnframfærsluna eða borgaralaunin, sem ég veit að hann hefur kynnt sér vel. Það sem situr í mér er hvort þetta sé skynsamleg dreifing á fjármunum, því að það mun auðvitað fara upp allan tekjuskalann. Það munu margir fá peninga þarna sem í rauninni þurfa ekki á þeim að halda sér til framfærslu, vegna þess að þeir hafa tekjur. Þá er mín spurning: Er ekki skynsamlegra að nota allan peninginn í þá sem geta ekki fjármagnað eigin framfærslu og þeir hafi meira til skiptanna? Ég vil heyra hvernig hv þingmaður hefur hugsað það.