144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[18:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Nákvæmlega hvernig skattfyrirkomulagið er veit ég ekki. Ég þekki ekki nógu vel alla mögulega skatta. Einn skattur sem ég hef kynnt mér nokkuð og er dálítið hrifinn af er skattur á land, það er erfitt að svindla á honum, hann er skilvirkur og gegnsær og veldur ekki efnahagslegum skaða, en það er eitthvað sem menn munu þurfa að taka heildstætt í gegn samhliða þessari þróun.

Varðandi það að ganga ekki of langt þá er náttúrlega enginn að ganga of langt, það er aðeins spurning hvað manni finnst vera of mikið. Í sumum tilfellum er gott að ganga of langt og brenna sig o.s.frv. en kannski ekki í þessu tilfelli.

Hvað varðar félagslega einangrun held ég að þessi tækni muni gera fötluðu fólki kleift að vera miklu færanlegra. Ég held að það séu ekki nema 20–25 ár í það að fólk sé komið með heimilisróbót sem gengur um. Í dag er hægt að kaupa hendur á 4 millj. kr. sem eru komnar á loft í eldhúsinu og elda fyrir þig. Það er hægt að kaupa í dag. Þótt þetta sé enn viss „work station“ eru skynjararnir, skynfærin á róbótinum orðin miklu öflugri. Þeir eru því farnir að færa sig í miklu meira mæli inn í mannlegt umhverfi án þess að við þurfum að vera hrædd við þá. Eftir 20–25 ár verða komnir slíkir róbótar inn á flest heimili, rétt eins og við verðum flest komin með þrívíddarprentara eftir kannski fimm ár. Það er hægt að ímynda sér það. Það er líka hægt að ímynda sér það þegar róbótatæknin er orðin öflug og það er ytri beinagrind, menn verða farnir hlaupa um allar koppagrundir. Það eru kannski 10 ár í að þetta verði orðið svolítið sjálfbærara. Ég held því að tæknin muni gera fólki betur kleift að færa sig, því sem getur það ekki í dag. Ég held að ég hafi ekki náð að svara öllu en þetta er alla vega mjög falleg framtíðarsýn.