144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[18:36]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Það er nú aldeilis ánægjulegt að slysatryggingar geti orðið slíkur innblástur sem við urðum vitni að hér.

Mig langaði fyrst að segja — af því að hv. þingmaður talaði mikið um bútasaum og flókin kerfi, og ég ætla ekki að draga úr því að almannatryggingakerfið hefur verið stagbætt í gegnum tíðina — að þetta eru svo mikilvæg kerfi og þau fúnkera mjög vel. Það þyrfti að setja meiri fjármuni inn í þau en það er mjög dýrmætt að eiga þessi kerfi sem tryggja fólki framfærslu.

Varðandi borgaralaun þá finnst mér það mjög áhugavert. Ég hef ýmsa fyrirvara varðandi það en það voru mikil vonbrigði að þingsályktunartillaga sem Halldóra Mogensen, varaþingmaður Pírata, lagði hér fram um borgaralaun en hefur ekki komist á dagskrá. Ég var búin að hlakka til þess að fá hana til umfjöllunar í velferðarnefnd því að ég held að þetta sé mjög áhugaverð umræða. Við sjáum það í umræðunni, þar sem vilji ákveðinna afla í samfélaginu er til að skilyrða fjárhagsaðstoð fyrir allra fátækasta fólkið sem leitar til sveitarfélaganna, að þetta er „tendensinn“ um allan Vesturheim. Þar sem strúktúrbreytingar eru að verða á hagkerfunum er sá vandi settur á einstaklinginn að hann þurfi bara að virkja sig meira og vera duglegri og þá leysum við þetta. Það hefur sýnt sig, eins og í Svíþjóð, að um 100 þús. láglaunastörf hafa tapast á síðustu tíu árum og fólkið sem hefði unnið þau er í sífelldum virkniúrræðum og niðurlægingu. Á borgaralaunum væri þetta fólk að gera eitthvað uppbyggilegt og skemmtilegt.

Mig langaði að spyrja þingmanninn: Telur hann það raunhæfan möguleika að prófa innleiðingu af einhverju tagi, byrja með tilraunir af einhverju tagi?