144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[18:44]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um slysatryggingar almannatrygginga. Það er athyglisvert að í raun er gerð tillaga um að færa okkur frá því að vera með þetta í einum lögum yfir í að vera með sérlög um slysatryggingar almannatrygginga. Það er út af fyrir sig kannski skiljanlegt miðað við það sem hér hefur komið fram í umræðunni og tengist því að almannatryggingalöggjöfin er alger frumskógur, þó að það eigi sér auðvitað rök og hafi verið viðbrögð við ólíkum vandamálum sem hafa komið upp í kerfinu, menn hafa verið að stagbæta kerfið með því að taka inn nýja og nýja flokka, bótaflokka og úrbætur, en það er auðvitað löngu kominn tími til að fara í heildarendurskoðun.

Þetta frumvarp hefur þá sérstöðu að það er lagt fram fyrst og fremst til að ná utan um slysatryggingarnar og er hluti af verðandi almannatryggingalögum. Eins og stendur hér ágætlega í lýsingunni er lagt til að ákvæði um slysatryggingakafla gildandi laga um almannatryggingar verði flutt í sérstök lög sem standi sjálfstætt við hlið laga um sjúkratryggingar og laga um almannatryggingar. Það verða þá þrenn lög og fjallað heildstætt um almannatryggingarnar og heildstætt um slysatryggingarnar. Þess vegna kom það mjög skýrt fram í nefndinni að þrátt fyrir ágætisábendingar og tillögur væri eðlilegt að halda sig meira við að taka fyrirkomulagið í gegn frekar en fara í efnisbreytingar, eðlilegra væri að þær yrðu gerðar í stóra samhenginu. Það er kannski þess vegna sem er mikilvægt að fara í þessa umræðu núna þegar verið er að vinna að breytingum á almannatryggingalöggjöfinni í starfshópi sem hv. þm. Pétur H. Blöndal leiddi, og það kom hér fram að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson leiðir þá vinnu núna þar sem margir aðilar koma að, og hún er framhald af vinnu sem fyrrverandi þingmaður Árni Gunnarsson leiddi hjá fyrrverandi ríkisstjórn og var komin býsna langt. Á síðasta kjörtímabili var lögð fram tillaga um breytingar á almannatryggingalöggjöfinni, það var einföldun og breytingar sem tengdust skipulaginu í heild og höfðu líka það meginmarkmið að einfalda allar tekjutengingar, styrkja lífeyriskerfið sem hluta af almannatryggingakerfinu og tryggja að menn nytu betur þess lífeyris sem þeir fengju greiddan úr lífeyrissjóðunum. Væntanlega er verið að vinna með þetta áfram í núverandi starfshópi og vonandi komast menn að niðurstöðu þar fljótlega.

Eitt af því sem kom fram í umræðunni áðan og mig langar að blanda mér aðeins í áður en ég fer lengra er það sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson velti fyrir sér um velferð og vinnu, hvernig velferðin getur haft jákvæð áhrif á vinnu og vinnugetu og raunar samfélagslega ábyrgð. Þar væri gaman að fara yfir það sem hv. þingmaður nefndi, kannanir sem hafa verið gerðar á þessu og þá í tengslum við umræðuna um borgaralaun. Mér er svo minnisstætt þegar menn drógu það einmitt fram fyrir nokkrum árum og sögðu alltaf — og segja reyndar gjarnan, við höfum fengið mikið af slíkri umræðu um rammalöggjöf hér og annað: Við þurfum að efla atvinnulífið, við þurfum að styrkja stóriðjuna, við þurfum að gera þetta og hitt, þá kemur velferðin. En menn hafa einmitt viðurkennt í norrænu samfélögunum að það er ekki þannig að annað komi af hinu heldur styðja þau hvort við annað. Velferðin getur orðið forsenda atvinnulífs, getur orðið til þess að menn vilja efla atvinnusköpun, vilja styrkja ákveðin svæði, vilja byggja upp vegna þess að þangað vill fólkið fara vegna þess að þjónustan er góð, tryggingarnar eru góðar, það eru góðir skólar, það eru góðir leikskólar o.s.frv. Það er alltaf rifist um það hvort kemur á undan og hvort kemur á eftir. Auðvitað getum við ekki fjármagnað velferðarkerfið nema með því að hafa einhverjar tekjur, en í því sem var rætt áðan kom líka mjög vel fram hvernig við lítum á það að hafa vinnu, það þurfa ekki allir að hafa vinnu eða réttara sagt, við höfum kannski ekki endalaust möguleika á að skapa öllum vinnu. Við erum að slást við lönd í Suður-Evrópu þar sem er 50% atvinnuleysi ungs fólks. Við getum ekki haldið áfram að líta á þann hóp fólks sem ekki fær vinnu sem einhverjar afætur á samfélaginu, eða að sá hópur líti á sig sem undirmálshóp eins og við sjáum raunar í Frakklandi, Ítalíu og víðar, þetta eru gjarnan hópar innflytjenda frá fyrrum nýlendum þessara landa sem líta á sig sem utan við samfélagið, njóta ekki réttinda og trygginga og vilja vinna, vilja vera í virkri þátttöku í samfélaginu. Það þarf einhverja hugarfarsbreytingu til að menn geti öðlast sjálfstraust og áttað sig á að þeir séu hluti af samfélagi þótt þeir stundi ekki hefðbundna vinnu.

Það sem mig langaði líka að gera að umræðuefni í tengslum við þetta frumvarp er að í breytingartillögum við frumvarpið eru gerðar, eins og komið hefur fram, breytingar á upphæðum. Það kemur fram í nefndarálitinu og breytingartillögum sem fylgdu því að vegna þess að frumvarpið var ekki afgreitt fyrir áramót þá voru gerðar frekari hækkanir með þessum tillögum. En það sem mig langar að gera að umtalsefni er hvernig þessar hækkanir koma til í almannatryggingakerfinu og þar með í slysatryggingunum. Hafandi kynnst því sem fyrrverandi ráðherra þá hef ég séð að það kerfi sem er við lýði í þessu er meingallað.

Þetta kom ágætlega fram í umræðunni um fjárlög. Hv. þm. Helgi Hjörvar var að rifja upp að hækkunin hefði verið 3,5% um síðustu áramót. Hún var alls ekki 3,5%, það var í fjárlagafrumvarpinu. Prósentutalan var lækkuð í 3% í síðustu umræðu um fjárlagafrumvarpið vegna þess að þá voru menn búnir að meta að launahækkanir og verðlag eða vísitala neysluverðs yrðu lægri en gert var ráð fyrir í upphaflegum forsendum fjárlagafrumvarpsins. Takið eftir hvað gerist. Þetta gagnrýndi ég því ég áttaði mig á þessu og þótt mér hafi ekki tekist að laga þetta þá var brýnt að laga þetta. Það eru forsendur fjárlaga sem ráða. Þá á ég við það að núna til dæmis endar hækkunin í 3%. Hér erum við að heyra af kjarasamningum með 10–15% hækkunum strax á þessu ári. En af því að hækkunin er ákveðin fyrir fram út árið ætti samkvæmt þeirri reglu ekki að koma til hækkun fyrr en um næstu áramót miðað við reynsluna af þessu ári og inn í næsta ár á eftir og þá eftir áætluninni sem er í fjárlögum. Hún er þannig, eins og stendur raunar hér og kemur ágætlega fram, að upphæðir skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Og þegar menn horfa á verðlagið þá taka menn alltaf meðallaunin, launavísitölu heildarinnar. Það gerðum við líka á fyrra tímabili og skal játast að þar hefðu menn átt að standa öðruvísi að. Staðreyndin er sú að menn voru að gera lagfæringar til að reyna að hækka lægstu launin meira en mið- og hátekjurnar, en það skilar sér ekki til öryrkja. Það skilar sér ekki til slysabóta og í hækkun á greiðslum í hinum ýmsu flokkum í kerfinu. Það skilar sér ekki til ellilífeyrisþega. Þetta er auðvitað mikill veikleiki í kerfinu.

Það hefur farið ótrúlega lítið fyrir ljótustu birtingarmynd þessa í umræðunni en hún er sú að við erum með ríkisfjármálaáætlun til næstu þriggja, fjögurra ára og er meira að segja komið nefndarálit frá meiri hluta hv. fjárlaganefndar og í þeirri áætlun er talað um að kaupmáttaraukning á því tímabili verði 2% á ári. Nú kann að vera að það breytist og markmiðið er auðvitað að það verði áfram kaupmáttaraukning og við fögnum því. Hún þarf sjálfsagt að verða enn þá meiri. En hvað haldið þið að standi líka? Hún á að vera 1% fyrir lífeyrisþega og örorkubótaþega. Hún á að vera helmingi lægri. Það er vilji hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar að kaupmáttaraukning á næstu fjórum árum eigi að vera helmingi lægri fyrir lífeyrisþega og þá sem þiggja bætur, þar með í slysatryggingum og öðru slíku, en á almennum markaði. Hvaða skilaboð eru það? Það er ríkisstjórn sem lofar því fyrir kosningar og segir að það þurfi að taka til baka niðurskurð, hún gerði það að hluta en engan veginn að öllu leyti, og kemur svo með þetta. Ég held að stjórnarþingmenn átti sig ekki á þessu. Ég held að þeir hafi ekki gert sér grein fyrir þessari vitleysu, að minnsta kosti tala þau ekki þannig þegar þau tala um stöðu lífeyrisþega og annað. Og þegar við ræðum um breytingar á ýmsum bótagreiðslum í tengslum við slysatryggingar þá notum við þessar lægstu vísitölur og forsendur í fjárlögum. Og það sem verra er er að á sama tíma, sem tengist ekki endilega nákvæmlega þeim slysum sem verða en varðar engu að síður sjúkdóma sem menn glíma við í framhaldi eða endurhæfingu eða stöðugar endurkomur á spítala, þá hafa menn aukið greiðslurnar í þeim hluta gríðarlega, bæði til sérstakra lækna en ekki síður í alls kyns þjálfun og endurhæfingu þar sem menn borga meira sjálfir, jafnvel nokkur skipti sjálfir að fullu og síðan eru lægri greiðslur þar á eftir. Þetta getur í sjálfu sér ásamt því sem verið er að leggja til orðið til að það aukist að menn kaupi sér einkatryggingar til að mæta þessu og það er margt sem bendir til að svo sé. Þá erum við komin í undarlega stöðu. Það er auðvitað ódýrast fyrir samfélagið að við séum með sameiginlega tryggingu, borgum svipaða upphæð og ávinningur okkar er að þurfa aldrei að nota þá tryggingu sem við kaupum en hún verður ódýrari ef allir taka þátt. Þegar menn fara að kaupa sérstakar tryggingar hver fyrir sig þá verður þetta miklu dýrara, enda sjáum við að fyrirtækin sem reyna að selja okkur sjúkdómatryggingar og annað slíkt eru farin að gera sérstaklega út á þetta og þau hafa engan áhuga á því að almenna tryggingakerfið styrkist, þau hafa engan áhuga á því. Þeirra hagur felst í því að geta selt tryggingar og helst að geta hrætt fólk þannig að það haldi að það geti engan veginn tryggt afkomu sína eða fjölskyldu sinnar öðruvísi en að kaupa sér sérstaka tryggingu.

Frumvarpið sem hér um ræðir fjallar eins og ég segi sérstaklega um slysatryggingar almannatrygginga og á að vera hluti af þessum þreföldu tryggingum, þ.e. almannatryggingum, sjúkratryggingum og hér eru svo slysatryggingarnar teknar út sem sérkafli. Hér er fjallað um hvernig framkvæmdin er og almenn ákvæði, að slysatryggingar taka til slysa við vinnu, iðnnám, björgunarstörf, hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar, íþróttakeppni eða heimilisstörf, enda sé hinn slasaði tryggður samkvæmt ákvæðum 7. og 8. gr. sem fjalla um heimilisstörf. Menn þurfa að tikka í ákveðinn reit í skattaframtali til að vera tryggðir við heimilisstörfin. Síðan er talið upp hvernig slys eru tilkynnt. Eitt af því sem hefur komið ágætlega fram í umræðunni og var mikið rætt að þarf að skila sér í efnislegum breytingum á þessum kafla í framhaldi af umræðunni hér, er hvernig slys eru tilkynnt og hvaða kröfur eru gerðar til þess, sem sagt hvað telst vera slys. Um það segir í almennu ákvæði í 5. gr. í frumvarpinu:

„Með slysi er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama hins tryggða og gerist án vilja hans.“

Það hefur komið fram og kom fram í öllum umsögnum gagnrýni á þetta orðalag, „skyndilegan utanaðkomandi atburð“. Vinnueftirlit ríkisins kvartar mjög yfir þessu vegna þess að þá fellur utan þessarar skilgreiningar ákveðinn hópur sem verður fyrir slysum, m.a. vegna þess að menn hafa kannski ofreynt sig eða vegna einhvers annars er hægt að segja við þá: Þetta var þér að kenna. Það eru mörg dæmi um slíkt þar sem menn hafa ekki fengið greiðslur vegna þess að þeir hafa gert einhverja óskynsamlega hluti að talið er, jafnvel í erfiðum aðstæðum. Frægt dæmi um það sem ég þekki mjög vel var þar sem einstaklingur greip til og ætlaði að reyna að bjarga öðrum einstakling, beitti til þess kröftum þannig að hann skemmdi eigin líkama, þ.e. bakið, og hann átti ekki rétt á bótum vegna þess að hann hafði gripið til óskynsamlegrar aðgerðar til að reyna að bjarga félaga sínum. Þið sjáið náttúrlega hversu galin sú hugmynd er.

Vinnueftirlit ríkisins vill að þessu ákvæði verði breytt og opnað á það þannig að í staðinn fyrir „skyndilegan utanaðkomandi atburð“ komi „skyndilegan óvæntan atburð“, þetta sé víkkað út. Sjúkratryggingar Íslands gera ekki athugasemdir við það, en Vinnueftirlitið telur þetta mjög mikilvægt og telur líka mjög mikilvægt að góð greinargerð fylgi til að skýra hvað átt er við. Það skiptir líka máli til þess að halda utan um skráningu slysa og að slys verði tilkynnt. Það er kafli í þessum lögum um tilkynningu slysa en Vinnueftirlitið fullyrðir að skráning á slysum sé ekki fullnægjandi, m.a. vegna þess að menn vita að þeir eiga ekki rétt á bótum. En þó berast 2 þús. tilkynningar á ári til sjúkratrygginga og töluvert af þeim verða að kærum og 10–15% er svo hafnað sem slysi þegar upp er staðið. Þess vegna hafa Sjúkratryggingar Íslands líka beðið um skýrara ákvæði af því að það er greinilegt að ágreiningur er um túlkunina á þessu atriði og mikið um kærur. Það er því mikilvægt að nýtt ákvæði verði býsna skýrt, það verði reynt að skýra hvað átt sé við og til hverra það nái. En nefndin taldi sér ekki fært að gera það í einmitt þessari vinnu, taldi að eðlilegra væri að bíða með efnislegar breytingar. Það er hins vegar mjög brýnt að þeirri vinnu verði haldið hratt áfram og nánari skilgreiningar komi sem allra fyrst inn í lög.

Í frumvarpinu eru taldir upp hverjir eru slysatryggðir. Það eru launþegar, það eru nemendur í iðnnámi í löggiltum iðngreinum, nemar í starfsnámi sem stunda nám í heilbrigðisgreinum og raunvísindum, útgerðarmenn sem sjálfir eru skipverjar, þeir sem vinna að björgun manna úr lífsháska, íþróttafólk sem tekur þátt í íþróttaiðkunum, atvinnurekendur í landbúnaði sem vinna landbúnaðarstörf, atvinnurekendur sem starfa að eigin atvinnurekstri og svo eru fleiri taldir upp. Það hefur komið ábending um að það vanti sambærilega tryggingu og er fyrir íþróttafólk fyrir þá sem eru í skyldunámi eða í formlegu námi í skólum landsins, yngri en 18 ára og raunar á hvaða aldri sem þeir eru, sá hópur er ekki talinn upp. Kennarasamband Íslands gerir athugasemd við það og bendir á að eðlilegt væri að þessar tryggingar næðu til námsmanna og ég tek heils hugar undir það og held að það sé mikilvægt að það verði svo í efnisbreytingunni sem fylgir í framhaldinu. Áður var ég búinn að nefna tryggingu við heimilisstörf en hún er sem sagt háð því að menn óski þess á skattframtali á hverju ári að vera þar tryggðir.

Bætur samkvæmt þessum slysatryggingum almannatrygginga eru sjúkrahjálp, dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur en það er mjög athyglisvert að sjá hvað er greitt. Ég ætla ekki að fara yfir það í smáatriðum en vil nefna hversu lágar tölur er um að ræða í mörgum tilfellum þannig að það er augljóst að gert er ráð fyrir að menn tryggi sig með einhverjum öðrum hætti til viðbótar við þessar tryggingar. Þar má til dæmis nefna dagpeninga sem eru upp á 1.677 kr. á dag fyrir hvern einstakling. Það sjá náttúrlega allir að menn lifa ekki lengi á því og sama þótt það bætist við 376 kr. fyrir hvert barn sem er á framfæri viðkomandi. Þetta eru ótrúlega lágar tölur og skiptir miklu máli að yfirfara þetta.

Þarna er líka farið að treysta á sjúkrasjóði verkalýðsfélaganna til hliðar við almannatryggingar sem gerir kerfið í sjálfu sér enn flóknara og svo náttúrlega það sem hér hefur komið fram ítrekað að menn kaupi sér tryggingar hjá einkaaðilum og láta þetta duga þannig.

Ég ætla ekki að hafa lengra mál í þessari umræðu um þetta frumvarp. Ég gríp hér tækifærið af því að við erum að fjalla um frumvarp til laga um slysatryggingar almannatrygginga. Ég mun styðja það, hafandi gert grein fyrir því hvað þarf að vinna í framhaldinu til þess að það verði eitthvert vit í þessu, það er það sem ég hef verið að reyna að koma hér að, um leið og ég hvet hæstv. ráðherra velferðarmála eða félags- og húsnæðismálaráðherra að fylgja fast eftir vinnunni við almanntryggingarnar og endurskoðun þeirra og reyna að ná því fram í sem allra mestri sátt. Þar hefur Öryrkjabandalag Íslands lagt fram eigin tillögur og það verður spennandi að sjá hvort það tekst að keyra þær saman við almennar óskir um almannatryggingar. Það er gríðarlega mikilvægt að reyna að ná sátt þar sem bæði öryrkjar og aðrir lífeyrisþegar eru undir í sama kerfinu og allar skerðingar verði sem allra gagnsæjastar og einfaldar. Það verður til dæmis að viðurkenna að ákvæði sem við settum inn til að tryggja lágmarkslífeyri á síðasta kjörtímabili sem var sérstaka framfærsluuppbótin, sem vó verulega þungt fyrir þá sem voru á lægstu bótum, var alltaf áætluð tímabundin. Hún er með skerðingu króna á móti krónu sem þýðir að enginn fær neitt út til viðbótar við það lágmark sem þar er nema vera kominn yfir 70 þús. í tekjur úr lífeyrissjóðnum. Það gengur ekki til lengdar þannig að ég hvet hæstv. ráðherra til að taka það upp sem allra fyrst og bæta það upp með öðrum hætti.