144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[19:06]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einfaldlega vegna þess að ég held að menn eigi að bíða aðeins með frekari bútasaum að við höfum lagt til að þær athugasemdir sem ég kom þó með fari inn í heildstæðu endurskoðunina, en þess vegna lagði ég svo mikla áherslu á að það yrði gert hratt og vel, annars er ábyrgðin mikil að hafa ekki bætt þessum bút inn í bútasaumsteppið. Þá er ég að tala um nákvæmlega það sem hér kom fram um skilgreininguna á slysi, þetta með utanaðkomandi atburð eða óvæntan, af því óvænt er opnara, það felur ekki í sér hver gerði hvað, en utanaðkomandi þýðir að einhver eða eitthvað hefur valdið því ef maður verður fyrir slysi, það er mismunur á þessu tvennu. Vinnueftirlitið og Sjúkratryggingar Íslands eru í raun sammála um að þessu þurfi að breyta en það þurfi líka að skilgreina þetta betur. Og í staðinn fyrir að vinna það í fljótheitum, þá segja menn: Við skulum bíða með þetta. En við megum ekki bíða lengi, við verðum að vera tilbúin á haustþinginu með varanlega útfærslu á betra og heildstæðara kerfi almannatrygginga, og þar með slysatryggingar.

Ég þekki ekki nákvæmlega vinnuna sem er núna í Péturs-nefndinni, þá á ég við endurskoðun á almannatryggingunum, en þær hugmyndir sem þar voru uppi um skerðingar voru þær að þegar menn hafa góðar tekjur einhverra hluta vegna, hvort sem það er vegna góðs lífeyrissjóðs, atvinnutekna eða annars slíks, þá séu samræmdar reglur um hvernig það veldur skerðingum, það sé hvergi skerðingarákvæði eins og ég var að nefna áðan sem er króna á móti krónu, því það er mjög ónotalegt að vera búinn að átta sig á því að maður fær 40 þús. kr. út úr lífeyrissjóði en það hækkar ekkert lífeyrisgreiðslurnar. Þannig er það í dag af því að þetta var sett inn sem lágmark til þess að tryggja þeim tekjur sem ekkert höfðu, sett sem bráðabirgðaákvæði og hefur dugað vel til þess að bjarga þeim sem voru lægstir, en það gengur auðvitað ekki nema í mjög skamman tíma, það verður að breyta því þannig að skerðingin sé ekki króna á móti krónu, heldur eitthvert hlutfall eða eitthvað slíkt. Þarna vega skattar inn í líka,(Forseti hringir.) svo detta menn yfir tekjumörk …