144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[19:10]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Það sem við glímum gjarnan við í umræðunni er að það takast á tvö sjónarmið, ef maður einfaldar þetta töluvert. Það er að borga þjónustu gegnum skatta eða greiða notendagjöld. Því miður erum við með ríkisstjórn núna sem vill gjarnan færa þetta yfir í notendagjöld. Hún talar um að lækka skatta, nefnir að vísu aldrei að þar með minnkar þjónustan, og vill þá að menn borgi fyrir það sem þeir fá. Það virkar sanngjarnt, en það virkar ekki sanngjarnt þegar þú þarft að borga hjartaaðgerð upp á 1 milljón eða meira. Það verða að vera samtryggingar. Þannig að ég deili þeirri skoðun að við eigum að borga þjónustuna af samneyslu, við eigum að borga hana í gegnum sameiginlegan kostnað. Ef allir taka þátt í því, því það eru ekki allir sem þurfa að nota þjónustuna, þá skilar það sér í betri þjónustu.

Ég hef sett það viðmið og það er fín yfirlýsing ef við ætlum að vera í fremstu röð og keppa við Norðurlöndin að við eigum að hækka hlutfallið af landsframleiðslu sem fer til heilbrigðiskerfisins. Við erum með heildarveltu á samfélaginu sem heitir landsframleiðsla og hún er einhvers staðar á milli 1.800–2.000 milljarðar. Við notum ákveðið hlutfall af þessari veltu sem við fáum í gegnum skatta í heilbrigðiskerfið og það fór upp í 9,5–9,8%, jafnvel meira af vergri landsframleiðslu. Hlutfallið er um 10% annars staðar á Norðurlöndunum. Við fórum niður fyrir 9% í neyðarástandinu og við erum enn þá ekkert á leiðinni upp. Í ríkisfjármálaáætlunin er ekki gert ráð fyrir að hækka þetta. Það eru vonbrigði. Við eigum bara að setja okkur markmið um að skila ákveðnum hluta af þjóðarveltunni inn í þennan kostnað, þá eigum við mjög vel fyrir góðri heilbrigðisþjónustu. Það er eins í menntakerfinu. Við sem þjóð viljum hafa þessi kerfi og við getum alveg haldið utan um þau og skipulagt þau, en við verðum að vera tilbúin til að borga það sem það kostar og það er ekki óyfirstíganlegt eins og menn láta alltaf því á meðan við erum að tala um fleiri, fleiri milljarða, oft í bönkum og öðru slíku, þá veltum við fyrir okkur krónum og aurum í heilbrigðiskerfið.