144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[19:12]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir ræðuna. Ég tel að það sé mjög mikilvægt atriði sem hann kom inn á, þær mjög svo litlu hækkanir sem fjármagn hefur verið tekið frá fyrir eða gert ráð fyrir að komi til hækkunar bótum í almannatryggingakerfinu. Ef samið verður á þeim grunni sem nú má lesa um í fréttum um hækkun lágmarkslauna er nokkuð ljóst að þá er farið að draga virkilega í sundur með þeim sem hafa þó lægstu tekjurnar sér til framfærslu.

Mig langar í tengslum við þetta að koma aðeins inn á, líkt og hv. þingmaður sagði í ræðu sinni, að það er mjög mikil ábyrgð að koma ekki með þessu frumvarpi með nýjan bút inn í bútasaumsteppið, heldur vísa til þess að heildarendurskoðun á lögunum sé fyrirhuguð innan tveggja ára. Ég vil spyrja hvort við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því hvað munurinn á milli slysadagpeninga og atvinnuleysistrygginga hefur verið að aukast, bara svo eitt dæmi sé nefnt, og að ekki virðist fyrirhugað að hækka slysadagpeningana, hvort það stefni hreinlega ekki í óefni og fólk sem lendir í slysi sitji eftir í alveg gríðarlega (Forseti hringir.) vondri fjárhagslegri stöðu.