144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[19:14]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir andsvarið og spurningarnar. Ég verð að viðurkenna að það er ákveðin hugsanavilla í þessu kerfi eins og ég var að ræða áðan. Við höfum rætt þetta svo oft vegna þess að við höfum átt mörg samtöl sog auðvitað hef ég staðið í átökum á móti Öryrkjabandalaginu í sambandi við hækkanir og annað, en það er ákveðin hugsanavilla í því að þegar menn tala um örorku og jafnvel slysabætur og dagpeninga og annað slíkt þá þarf það alltaf að vera í einhverju lágmarki. Það þarf alltaf að vera þannig að allir aðrir eiga helst að vera með hærri laun, a.m.k. ekki lægri. Þá er alltaf verið að tala um hvatann til vinnu og menn segja að fólk reyni að koma sér á bætur. En það er ekkert sem sýnir fram á það, það er ekkert sem bendir til þess. Ekki einn einasti öryrki sem hefur óskað eftir að vera á örorkubótum, en það geta verið ýmsir aðrir sem vilja koma honum á bætur. Svo kvarta menn. Þetta er vandinn, þetta er kerfisvillan sem við getum talað um í sambandi við málefni öryrkja og þeirra sem þurfa á samfélagslegri aðstoð í gegnum slysabætur að halda.

Auðvitað spyr maður spurninga um hækkanir og hlýtur að gera það á næstu dögum, nú þegar maður fagnar því að kjarasamningar eru að nást. Mér skilst að stjórnvöld hafi verið að kynna sinn hluta síðdegis í dag, þótt þingið fái ekki að vita af því. Mér sýnist að á næstu þremur árum ætli menn að ná lágmarkslaunum upp í 300 þús. kr. Fá öryrkjar það? Hækka bætur um svipaðan hluta? Hækka sjúkradagpeningarnir um sama hluta? Hækka menn atvinnuleysisbæturnar? Menn vildu halda þeim frekar lágum vegna þess að það átti að vera atvinnuhvetjandi. Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að það þarf að vera ákveðin eftirfylgni með því að menn nýti sér að sækja vinnu þar sem hún er í boði. Það þarf þá að tryggja að hún sé í boði. En það er ekki hægt að svelta menn, hvorki til þess að hætta að vera öryrkjar né læknast af slysum né vera komnir í vinnu ef engin vinna er í boði.