144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[19:41]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Vissulega, eins og ég svo sem sagði og vissi, snýst þetta um formið. Það er verið að skilja þetta í sundur. Ég tek undir að það er bagalegt að fólk nýti ekki tækifærið til þess að laga það sem þó er bent á. Mér finnst sumpart að þessar skilgreiningar, alla vega einhverjar þeirra, eigi ekki að þurfa mikla yfirlegu. Mér finnst svolítið verið að ýta vandamálunum til framtíðar án þess að reyna að takast á við að koma þeim í orð. Ég held að það hafi verið gerð tillaga að breytingum sem ætti að vera hægt að taka mark á, af þeim sem eru að hugsa fyrst og fremst um þá sem nýta sér þessa þjónustu.

Kannski hefur velferðarráðneytið verið undirlagt af húsnæðismálum eða einhverju slíku sem ekki skilar sér svo inn í þingið þó að það eigi að vera aðskilið, en eitthvað tefur ef skilvirknin er ekki meiri, ef málin koma seint fram og nást jafnvel ekki í gegn. Það virðist til dæmis ekki hafa verið lögð vinna í þetta mál.

Varðandi það að launafólk þekki réttindi sín, það er auðvitað jafn misjafnt og fólk er margt. Þess vegna held ég að svo mikilvæg samtök geri athugasemdir, ASÍ o.fl. Fólk leitar kannski til stéttarfélags síns um aðstoð þegar kemur að einhverju slíku til þess að vita um rétt sinn, hjá félaginu og vinnuveitanda o.s.frv., en ég er ekki viss um að margur viti það svona af því bara. Auk þess held ég líka, eins og ég sagði áðan, að það fólk sem stendur hvað verst (Forseti hringir.) sé ekkert að taka við til dæmis (Forseti hringir.) slysatryggingu heimilisstarfa.