144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

störf þingsins.

[10:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég sagði við manninn minn yfir morgunkaffinu að ég ætlaði að ræða um agaleysi í ríkisfjármálum undir liðnum um störf þingsins í dag. Hann sýndi lítil svipbrigði og sagði: Það mun nú ekki rata á forsíður dagblaðanna. Og það er rétt, það mun sennilega ekki rata á forsíður dagblaðanna, en það ætti hins vegar að vera á forsíðum dagblaðanna, vegna þess að agaleysi í ríkisfjármálum, skortur á langtímaáætlunum og skammsýni hefur slæmar afleiðingar fyrir fólk og fyrirtæki í landinu.

Einn mælikvarði á aga í ríkisfjármálum er hversu vel tekst til að halda fjárlög og að frávik frá fjárlögum í fjáraukalögum sé sem minnst. Á síðasta kjörtímabili tókst að minnka þessi frávik verulega en því miður virðist sem allt sé að fara úr böndunum aftur og á sama stað og við vorum á fyrir hrun. Skortur á vandaðri stefnumótun er einkennandi fyrir núverandi hæstv. ráðherra og virðist sem lítill skilningur sé fyrir slíkri vinnu í núverandi ríkisstjórn og ljóst er að fjárlög 2015 munu ekki standast. Nýlegasta vísbendingin var kynnt í fjárlaganefnd í gær. Á fjárlögum er aðeins gert ráð fyrir 145 millj. kr. í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða þó að hver maður hafi séð, þegar stjórnarmeirihlutinn samþykkti fjárlög, að það mundi ekki duga nema fyrir örfáum verkefnum.

Nú hefur það komið í ljós að bæta á við 850 milljónum í ferðamannastaðina og 1,8 milljörðum í viðhald vega. Hvort tveggja gerði minni hlutinn tillögu um en meiri hlutinn felldi. Þetta sýnir, herra forseti, að skammtímahugsunin sem ríkir í hæstv. ríkisstjórn mun hafa aukinn kostnað í för með sér, bara hvað þetta varðar, því að ljóst er að ef við hefðum samþykkt þetta í desember og fólk hefði getað farið að skipuleggja verkin þá hefði það haft minni kostnað í för með sér en að skella þessu fram hér á miðju ári (Forseti hringir.) þegar ferðamenn eru byrjaðir að streyma til landsins.