144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

störf þingsins.

[10:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það var einmitt þannig að við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár rétt fyrir jólin var hvort tveggja gagnrýnt að fjármagn til uppbyggingar á ferðamannastöðum og í þjóðgörðum og til framkvæmda í vegamálum væri ófullnægjandi og óraunhæft lítið. Fjárlögin mundu ekki halda með þessum lágu tölum. Engu að síður lokaði stjórnarmeirihlutinn fjárlögunum eins og raun ber vitni. En nú berast sem sagt fréttir af ákvörðun í ríkisstjórn um að bæta 2,6–2,7 milljörðum kr., talsverðri fjárhæð, við ríkisútgjöld í þau brýnu verkefni, að sjálfsögðu ánægjulegt fyrir þeirra hönd, en aðferðafræðin getur tæpast talist sú sem flokkast undir vandaða stjórnsýslu eða agaða ríkisfjármálastefnu eða ríkisfjármálaframsetningu.

Ég vil því spyrja hæstv. formann fjárlaganefndar sem ég hef aðvarað um að ég vilji eiga við hana orðastað:

Í fyrsta lagi. Nú er þetta annað árið í röð sem framkvæmdir á ferðamannastöðum verða að uppistöðu til fjármagnaðar með aukafjárveitingu. Er það góð regla? Er það góð þróun?

Í öðru lagi. Hér er ekki aðeins verið að ákveða útgjöldin heldur skiptinguna niður á einstök verkefni fram hjá Alþingi og án umsagnarferlis. Er það góð aðferðafræði?

Í þriðja lagi. Það sama á við um vegamálin. Hér er ekki aðeins verið að ákveða upphæðina heldur er ákveðið í hvaða tilteknu nýframkvæmdir í vegamálum hún skuli fara, fram hjá samgönguáætlun sem ekki hefur litið dagsins ljós og væntanlega án aðkomu samgönguráðs. Er þetta sú stjórnsýsla sem við viljum sjá?

Í fjórða lagi vil ég spyrja hv. formann fjárlaganefndar: Hvernig rímar þetta við markmiðin um að bæta stjórnsýslu og aga vinnubrögð samkvæmt frumvarpi um opinber fjármál sem er einmitt hér til meðhöndlunar í þinginu? Hvaða einkunn fengi (Forseti hringir.) það mælt á mælikvarða þess sem frumvarpið gengur út á?