144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

störf þingsins.

[10:21]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætlaði að tala um allt annað mál en ég hyggst fjalla um núna vegna þess að mér eiginlega ofbýður það sem formaður fjárlaganefndar kemur fram með hér og svarar ekki þeim spurningum sem til hennar er beint. Hv. þingmaður talar mikið um aga í ríkisfjármálum og hvernig ber að fara með þau. Við í minni hlutanum styðjum hana í því, en við getum ekki fallist á að það sem hér var verið að gera endurspegli þann aga.

Það er líka athugunarvert þegar hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar ber það upp hér að náttúrupassinn hafi átt að verða tekjulindin sem varð til þess að ekki voru settir fjármunir í til dæmis Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, þá er það bara ekki þannig. Náttúrupassinn kom fyrir það fyrsta seint inn, en honum var auðvitað ætlað að skila tekjum inn í ríkissjóð sem þarf svo heimild í fjárlögum til að nýta, hvert svo sem þeir peningar hefðu átt að fara og á hvaða staði. Það að svara því ekki að hér sé gengið fram hjá þinginu, algjörlega, í ákvarðanatöku, þ.e. hvert fjármunirnir eiga að fara og í hvaða verkefni þeim er varið, það finnst henni greinilega boðlegt. Okkur finnst það ekki.

Í annan stað þegar hún talar um að ekki hafi verið settir fjármunir í samgönguframkvæmdir á síðasta kjörtímabili þá verður manni eiginlega orða vant. Ég held að settir hafi verið einir 80 milljarðar á síðasta kjörtímabili í samgönguframkvæmdir. Hins vegar hefur ekkert verið gert það sem af er þessu kjörtímabili. Héðinsfjarðargöngin voru kláruð, farið var í Hófaskarð, byrjað var á Suðurlandsvegi, Dettifoss, Norðfjarðargöngin svo fátt eitt sé nefnt. (Gripið fram í: Vestfjarðaleið.) Já, það eru svo mörg verkefni. Það er eins og stundum hefur verið sagt, það verður örugglega sett Íslandsmet í framkvæmdum, en það verður hins vegar Íslandsmet í því að gera ekki neitt núna í samgönguframkvæmdum.

Hæstv. forseti sagði á fundi þingflokksformanna, ég held á þriðjudaginn, að gert væri ráð fyrir að samgönguáætlun kæmi fram og ég spyr: Hvar er hún? Á að ganga fram hjá Alþingi í þeim ákvarðanatökum? Það er ekki boðlegt. (Gripið fram í.) Er hún komin?