144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

störf þingsins.

[10:23]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Stjórnarliðar hafa verið að koma hingað upp og mæra afrek ríkisstjórnarinnar. Ég held að það sé nú ekki hægt að hrósa sér mikið af þeim, það má kannski þakka fyrir að hún hafi ekki eyðilagt meira en gert hefur verið á þeim tveimur árum sem hún hefur verið við völd og að árangur fyrri ríkisstjórnar sé sem betur fer að skila sér í lágri verðbólgu og atvinnuuppbyggingu í landinu. Stundum finnst manni eins og ríkisstjórninni finnist að hún hafi fundið upp hjólið frá og með árinu 2013, að það hafi bara ekkert verið þar á undan og menn hafi ekki þurft að takast á við efnahagshrun í landinu.

En ég ætlaði að koma hingað upp vegna þess að nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar í kjaramálum virðist vera það að fara að hræra í skattkerfinu og fella niður miðþrepið. Þetta þrepaskipta skattkerfi, sem sett var á í tíð síðustu ríkisstjórnar, er til þess að jafna kjörin í landinu og mæta ólíkum tekjuhópum. Það má alveg segja að hreyfa megi eitthvað við skattprósentu og hreyfa eitthvað við þrepunum, það er ekkert að því, en það er bara grjóthörð hægri stefna að ætla að afnema skattþrep og þýðir ekkert annað en að skattbyrðin léttist á þeim tekjuhærri en þyngist á þeim tekjulægri. Með því að fækka þeim er verið að fara aftur í fyrra horf eins og var í stjórnartíð Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins þar sem skattbyrði á þeim tekjulægstu, á millitekjuhópum, hækkaði gífurlega, það eru bara tölulegar staðreyndir sem sýna það. Við skulum ekki gleyma því að skattar eru ekki bara einhver skattpíningartæki vondra stjórnarherra hverju sinni. Við erum að nota skattana til að byggja upp velferðarkerfi, samgöngur í landinu og menntakerfið. Við skulum ekki gleyma því. Þessi ríkisstjórn (Forseti hringir.) ætlar greinilega að skera niður áfram í menntakerfinu, velferðarkerfinu og samgöngunum með því að lækka skatta á þá tekjuhærri um tugi milljarða.