144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

störf þingsins.

[10:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg ótrúlegt að hér komi hv. þingmenn og fullyrði að skorið hafi verið niður í velferðarkerfinu í tíð núverandi ríkisstjórnar. (Gripið fram í: Rétt.) Það getur hver og einn — heyrðu, hv. þingmaður sem gengur hér fram hjá er einfaldlega bara að skrökva. Það getur hver sem vill kynnt sér það mál með því að fletta upp í fjárlögum. Sá sem trúir því að með því að hækka skatta þýði það endalaust meiri tekjur, ég hvet þá viðkomandi til að skoða þjóðfélög sem við viljum alls ekki bera okkur saman við.

Hér ræðum við um fundarreglur hjá okkur alþingismönnum. Það er mjög æskilegt ef við getum náð saman um einhverjar breyttar reglur, við höfum reynt það áður, til að gera þingstörfin skipulagðari. Við skulum hins vegar hafa það í huga að ekki er nóg að breyta reglunum, viðhorfið verður að breytast líka. Ef menn nota fundarstjórn forseta eins og gert er núna þá er það auðvitað misnotkun á því og það skiptir ekki máli hversu mikið við breytum því, það er bara hrein og klár misnotkun á því tæki. Það vekur athygli mína að þingflokkur Bjartrar framtíðar sem sagðist ekki ætla að stunda málþóf hefur allur tekið þátt í því að undanskildum hv. þm. Óttari Proppé.

En ég ætla að ræða tvennt á þessum mínútum. Á forsíðu Morgunblaðsins er stórfrétt um að bankarnir hafi verið seldir án lagaheimildar. Þetta er umsögn Bankasýslu ríkisins, þeirrar sem mikið hefur verið rædd hér, og ég held að þetta þurfi að skoða. En líka hafa að undanförnu verið greinaflokkar um lobbíista fyrir erlenda kröfuhafa hér á landi. Ég held að við verðum að stíga þau skref eins og aðrar þjóðir sem gera það, að viðkomandi lobbíistar verða að tilkynna sig, þeir verða að láta vita fyrir hverja þeir starfa. Það er gert í þeim Evrópuríkjum sem við viljum bera okkur saman við og sömuleiðis í Bandaríkjunum. Það er augljóst að því miður hafði hæstv. forsætisráðherra rétt fyrir sér þegar hann talaði (Forseti hringir.) um það hvernig kröfuhafarnir unnu hér á landi. Við verðum að hafa meira gagnsæi í þessu og ég mun beita mér fyrir því.