144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[10:40]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni höfum markað stefnu um að miðhálendið verði þjóðgarður. Við teljum þess vegna mjög mikilvægt að fara með gát þegar kemur að stefnu um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Í þeirri þingsályktunartillögu sem hér kemur til atkvæða eru ákvæði sem hægt er að túlka þannig að þau gangi skemur en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðað um hvað varðar skyldu til að meta jarðstrengi til jafns við loftlínur í nýgengnum úrskurði.

Ég tel þess vegna ekki fært að standa að samþykkt þessarar tillögu í þessu formi enda er varhugavert ef hægt væri að túlka atbeina Alþingis þannig að verið væri að setja ofan í við úrskurðarnefndina. Þvert á móti er mjög mikilvægt að það komi fram í ræðustól Alþingis að það er eindreginn vilji okkar að áfram verði haldið að styðja við það (Forseti hringir.) að raflínur verði lagðar í jörð og að sá kostur verði ávallt kannaður til fulls sem sambærilegur kostur við lagningu loftlína.