144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[10:51]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Viðhorfin breytast svo hratt í þessum málum að við stöndum frammi fyrir því að nýlegar eru fallnir úrskurðir sem sýna alveg ný viðhorf til lagningar jarðstrengja umfram loftlínur, jafnt hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem og í nýlegri ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA sem afsannar það að það séu einhverjar lagalegar hindranir fyrir því að jarðstrengir séu lagðir umfram loftlínur. Þetta kallar á það að við hugsum þessi mál algjörlega frá grunni. Nettógjaldeyristekjur þjóðarinnar af ferðaþjónustu eru orðnar þrefaldar á við það sem er af stóriðju. Við hljótum að setja í forgang verndargildi miðhálendisins og þegar við stöndum frammi fyrir því á Alþingi að hafa verið í deilum við meiri hlutann í tvær vikur þar sem komið hefur í ljós fordæmalaus ásælni meiri hlutans í virkjunarkosti á miðhálendinu og að þeir leggja lykkju á leið sína til að reyna að koma á virkjunum, þvert á lög og reglur, í Skrokköldu og við Hagavatn, getum við ekki greitt atkvæði með (Forseti hringir.) stefnumörkun þessa meiri hluta sem hefur sýnt að hann er tilbúinn að rangtúlka og afvegaleiða alla umræðu um vernd á hálendinu.