144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[11:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við stöndum að þessum breytingartillögum með meiri hluta atvinnuveganefndar. Ég vil rifja upp að þær eru afleiðing þess að við áttum hér í nokkrum átökum um þetta mál fyrr í vetur og niðurstaðan sem hérna er fengin bætir til muna gallað mál og sýnir að í þingstörfum og jafnvel í löngum ræðum í þingsal höfum við áhrif til góðs í að skapa vogarafl til samninga til heilla fyrir okkur öll. Málið er til muna betra. Það er búið að tryggja aðkomu Alþingis að stefnumörkuninni, það er búið að tryggja kæruleiðir sem eru nauðsynlegar og það er búið að hemja og setja bönn á hið óhefta frelsi flutningsfyrirtækisins sem var að finna í upphaflegu frumvarpi.

Það á auðvitað ekki að vera Landsnets að ákveða með hvaða hætti raforkukerfið er byggt upp heldur er það verkefni löggjafans í umboði þjóðarinnar allrar (Forseti hringir.) að marka þá stefnu til verndar miðhálendinu sérstaklega.