144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[11:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þessar breytingartillögur eru allar til bóta og komu til af samstarfi meiri hluta og minni hluta eftir nokkuð mikinn núning um þetta mál í þinginu. Þetta er dæmi um að nokkurra daga umræða í þingsal leiddi mönnum það fyrir sjónir að það mátti bæta málin og ég þakka fyrir það en um leið finnst mér það okkur umhugsunarefni að það gerist oftar en ég vildi sjá að mál fái litla umræðu við 1. umr. og menn sjái fyrst vankanta á þeim þegar þau eru komin til 2. umr. Það er óþægilega seint þegar um er að ræða viðurhlutamikil mál sem þurfa verulegrar endurskoðunar við.

Hér eru umhverfis- og náttúruverndarsjónarmið styrkt og lýðræðissjónarmið sömuleiðis en hér er ekki gengið nógu langt, eins og kom fram í breytingartillögunni sem var felld rétt áðan, þannig að við vinstri græn munum ekki styðja málið svo breytt en styðjum breytingartillögurnar málinu til bóta.